Afbrot 2012 og 2013; hver er þróunin?

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér skýrslur um málið. Fyrst góðar fréttir innbrot á þessu ári voru þrefalt færri en þau voru 2009. (Ekki endanlegar tölur fyrir 2013). Að meðaltali eru nú framin rúmlega tvö innbrot á dag. Kynferðisbrotum fjölgar á árinu eða um 66% miðað við 2012. Tæplega 40% allra líkamsárása eiga sér stað í Miðborg Reykjavíkur. Það sem af er árinu hefur lögregla og tollgæsla lagt hald á 30 kíló af amfetamíni. Akstur undir áhrifum víns eða fíkniefna færðist í aukana. Það sem af eru árinu hafa orðið 362 slys í umferðinni eða um eitt á dag að meðaltali.

Fyrir árið 2012 eru til endalegar tölur. Eitt manndráp varð á árinu en 5 tilraunir til mannsdráps. Fíkniefnabrot voru samtals 1325. Fjölgun um 12% varð frá 2011. Ofbeldisbrot voru 757. 20354 einstaklingar voru kærðir fyrir brot af einhverju tagi. Kærðir einstaklingar eru 6.25% af þjóðinni. karlar voru 14654. Fyrir umferðarlagabrot voru 17196 kærðir. Af þeim voru konur 5158.

Afbrot vekja ótta. Konur, eldra fólk og íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri en aðrir til að óttast afbrot. Þeir sem hafa fleiri prófgráður(lengri skólagöngu) óttast minna en þeir sem minni menntun hafa. Alþjóðlegar rannsóknir á öryggiskennd fólks hafa sýnt að hún er mjög mikil hér á landi. Bein eða óbein reynsla fólks af afbrotun virðist ekki hafa áhrif á öryggiskennd. 


Ari í Ögri og græðgin en engin duld.

Ari Magnússon fæddist 1571. Hann varð sýslumaður 1592 og sýslumaður var hann í 55 ár. Hann varð snemma einráður á Vestfjörðum og fékk viðurnefnið Vestfjarðakóngur. Hann eignaðist miklar jarðeignir og beitti ekki alltaf vönduðum vinnubrögðum við auðsöfnunina. Á 15.öld hófu Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar að sækja á Íslandsmið. Þeir stunduðu einnig verslun eða vöruskipti við Íslendinga en fóru ekki alltaf friðsamlega. Óttuðust af þeim sökum margir útlendingana. 1602 tekur einokunarverslun gildi. Magnús prúði, faðir Ara, samdi mikinn lagabálk 1581 um landvarnir gegn útlendu illþýði. Á þeim tíma báru Vestfirðingar vopn og gátu varið sig. Í byrjun 17. aldar hófu Baskar frá Norður-Spáni að sækja hingað til hvalveiða. 1615 urðu erjur milli hvalveiðimanna og íslenskra bænda norður á Ströndum. Nótt eina gerir mikið hvassviðri og þrjú skip Baska brotna. Í október 1615 var Ari með 50 vopnaða menn. Hann hafði fregnir af því að útlendingarnir hefðu ýmsar gersemar í fórum sínum. Lofaði hann mönnum hlutdeild í herfanginu. Urðu þá margir fúsir til fararinnar.Hann ákvað að ráðast á 18 eftirlifandi Baska og drepa þá. Útlendingarnir héldu þá til í Æðey. þegar Ari kemur að með lið sitt eru 5 menn í Æðey en 13 á Sandeyri á Snæfjallaströnd. Þeir höfðu veitt hval á stolnum bát og dregið hann uppá eyrina. Útlendingarnir voru allir drepnir. Segir þá af herfanginu. Ari lýsir því yfir að allt herfangið sé eign konungsins. Herfangið skyldi flytja heim í Ögur. Ari fékk sín umboðslaun enda var hann dyggur og trúr umboðsmaður konungsins. Á Alþingi var síðar staðfest að Ari í Ögri hefði unnið landhreinsunarverk. Ari og Kristín kona hans létust 1652. Til er minningartafla sem máluð er 1650. Þar krjúpa hjónin við kross Krists og mætti ætla að þau hafi verið viðstödd krossfestinguna. 

Mun hagvöxtur í USA vaxa árið 2014?

Það ríkir bjartsýni hjá bönkum og fjármálastofnunum bæði í Evrópu og Ameríku. Á næsta ári mun hagvöxtur aukast. Deutsche Bank spáir 3% hagvexti í USA á næsta ári og 3.8% árið 2015. Og vampíran sjálf Goldman Sachs er sama sinnis. 2014 verður ár hagvaxtar, einkaneysla vex og fjárfestingar sömuleiðis. Á 3ja ársfjórðungi í ár var hagvöxtur 4.1%. Þetta var hæsta tala í rúm tvö ár. Á þessu tímabili jukust birgðir mjög mikið. Fyrirtæki hafa keypt mikið af vörum frá birgjum en óvíst er hvort raunveruleg eftirspurn er til staðar. Á 3ja ársfjórðungi minnkaði einkaneysla eða útgjöld neytenda. Frá því sumarið 2009 hefur landsframleiðsla aukist um 10%. Útgjöld neytenda skýra 65% af þessum vexti. Nýbyggingar skýra 9%. Birgðaaukning skýrir 19%. Ástandið á vinnumarkaði er viðkvæmt. Hlutfall atvinnuleysis minnkar en aðallega vegna minnkandi atvinnuþátttöku.  Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 24 hefur minnkað mikið. Skólarnir hafa það hlutverk að létta á vinnumarkaði. Margir þeirra sem eru í hlutastarfi hafa áhuga á fullu starfi en fá hvergi meiri vinnu. Í október urðu til 204000 ný störf en stærstur hluti þeirra eru láglaunastörf. 60% starfa sem hafa glatast í kreppunni síðan 2007 voru störf með meðallaunum en 58% nýrra starfa eru láglaunastörf. 25% vinnandi fólks í USA eru með 10 dollara eða minna á klukkutímann. Meðal raunlaun fara lækkandi. 5% á toppnum hafa hinsvegar hækkað laun sín um 8% síðan 2008. Hjá topp 20% hafa laun hækkað um 6%. Samkvæmt opinberum tölum lifa 15% bandaríkjamanna í fátækt. Allir mælikvarðar sýna að bilið milli ríkra og fátækra er að breikka. (framhald).

Þýskaland 2014; horfur í efnahagsmálum eru góðar.

Það er ákaflega margt sem bendir til þess að uppsveifla geti orðið á næsta ári. Vextir eru lágir vegna þess að erlent sparifé streymir til landsins. Það er talið öruggt að geyma peninga í Þýskalandi. Erlendir peningamenn kaupa þýsk skuldabréf á nánast núll vöxtum. Framboð á peningum til fjárfestinga verður þess vegna mikið. Efnahagslega sterkt Þýskaland hefur sömu mynt og veikari ríki í Suður Evrópu. Ef evran veikist verður samkeppnisstaða Þýskalands enn betri. Spárnar eru góðar fréttir fyrir samsteypustjórn hægriflokkanna og jafnaðarmanna. Laun  ættu að hækka og þá skatttekjur hins opinbera. Stjórnin hefur sett fram fjárfestingaráætlun uppá 23 milljarða evra á næstu árum. Í kreppulöndum Evrópu liggur leiði einnig uppá við. Írland og Spánn hafa lokið þátttöku óg samstarfi við Björgunarsjóð ESB. Portúgal gæti gert það með vorinu. Grikkland og Kýpur eru enn verst sett. Ennþá er atvinnuleysi mikið í Þýskalandi en markaðslögmálin eru miskunarlaus. Fyrirtæki geta valið um staðsetningu á framleiðslustöðvun. Launakostnaður skiptir miklu. En auðvitað getur allt farið á verri veg. Öfgaflokkar gætu náð völdum í Grikklandi. Í nótt var ráðist á heimili þýska sendiherrans í Grikklandi með kalaschnikow byssu.Utanríkisráðherrann hefur motmælt þessu og segir ekkert réttlæta slíkt. 1999 var einnig ráðist á heimili sendiherrans en þá með skriðdrekavörpu (?)(Panzerfaust). Kannski springur skuldabólan í Kína, kannski lendir franskt hagkerfi aftur í niðursveiflu; það er erfitt að spá.....OECD hefur spáð því að evrusvæðið muni vinna sig uppúr erfiðleikunum en spáin fyrir Þýskaland er sérstaklega góð. 

Lettland hluti af evrusvæðinu 1.1. 2014.

Lettland er 18. ríkið til að ganga í myntbandalagið.Lettar eru rúmar tvær milljónir og hagkerfi þeirra er 0.3 % af hagkerfi evrusvæðisins. Lettland er því smáríki en stærðin segir ekki alla söguna. Áður var Lettland á áhrifsvæði Sovétríkjanna og Rússland er og verður nágranni. Stórir og fyrirferðamiklir nágrannar geta verið erfiðir. Gjaldmiðilinn heitir enn lats og í mörg ár hefur hann verið beintengdur evrunni. Lettland gekk í ESB 2004 og Nató sama ár. Lettar brugðust við fjármálakreppunni 2008 með miklum niðurskurði og lækkun launa. Laun í opinbera geiranum voru lækkuð um 20%. Lettar hafa ekki farið þá leið að fella gengi latsins. Landið er ekki ríkt en það mun standa sig í samkeppni. það er reiðubúið aðganga í evrusvæðið. Vandinn er að evrusvæðið er ekki tilbúið fyrir Lettland. Sérstakt ráð stýrir Evrópska Seðlabankanum (EZB). 23 lönd eiga fulltrúa í ráðinu og hver fulltrúi hefur eitt atkvæði. Bankastjóri Seðlabanka Lettlands verður nú fulltrúi númer 24. Hann er tæplega fimmtugur hagfræðingur og menntaður í USA. Þjóðverjum líst vel á þetta. Nú verður hægt að styrkja Norðurbandalagið gegn Suðurbandalaginu í líkingum talað. Í ráðinu takast á ólíkir hagsmunir og EZB virðist vanbúinn að takast á við mikinn vanda evrusvæðisins. Bankakerfi ESB er ólíkt því bandaríska. FED hefur mikil völd og hann þarf ekki að deila því með mörgum öðrum bönkum. Í Lettlandi er atvinnuleysi 14% og samkvæmt upplýsingum Eurostat lifir 20% Letta í fátækt eða í hættu á að verða fátækur. Lettar eru 62% af íbúum landsins og Rússar 27%. Hvítrússar eru rúm 3%. 38% af íbúum landsins eru því af mismunandi minnihlutahópum. 

Hátekjuskattur Hollande staðfestur af stjórnarskrárráði Frakklands.

Skatturinn er 75% á háar tekjur og var afar umdeildur. Einstaklingur með milljón evra í árstekjur borgar þennan skatt. Þessi skattlagning var eitt af helstu baráttumálum Hollande í kosningabaráttunni gegn Sarkosky. Ýmsir frammámenn í atvinnulífinu(eins og sagt er) mótmæltu þessum háa skatti og töldu að auðugir einstaklingar myndu flytja úr landi til að losna við skattinn.  Ríkisstjórn Hollande breytti fyrirkomulagi skattsins eftir að lögunum hafði verið hafnað af stjórnarskrárráðinu. Nú eru lögin þannig að fyrirtæki sem borga einstaklingum hærri laun en milljón evra borga skattinn. Þessi breyting hlaut náð fyrir augum ráðsins. Fyrirtækin borga 50% af háum launum vegna skattsins en vegna annarra gjalda og skatta fer hlutallið uppí 75%. Skatturinn er fyrst og síðast pólitískur og táknrænn. Hinir ríku eiga að taka þátt í að bera byrðarnar eftir kreppuna 2008. Heildarskatttekjur munu ekki verða miklar en Hollande forseti segir að þetta sé hvatning til fyrirtækja til að leggja af ofurlaun. Knattspyrnufélög verða nú að fara að huga að stjörnum sínum. heildarskatthlutfall er nú orðið 46% af vergri landsframleiðslu sem er mikið á alþjóðlegan mælikvarða. Atvinnuleysi er nú 11%. Rúmar 3 milljónir Frakka eru atvinnulausir. Stjórn Hollande leggur allt kapp á að lækka þessa tölu, m.a. með tímabundinni opinberi niðurgreiðslu á launakostnaði. Leikarinn Depardieu sem er einn af helstu kvikmyndaleikurum þjóðarinnar dvelur nú í Moskvu. Af honum birtast reglulega fréttir í rússneskum blöðum. 

Hanna Birna og Össur eru sammála um mikilvægi afnáms gjaldeyrishafta.

Hanna Birna lifir í eigin heimi. Sá heimur er heimur flaums innihaldslausra orða. Hún fór með íhaldstrúatjatningu margoft í þættinum á Sprengisandi í morgun. Engin rök bara reynt að kjafta viðmælandann í kaf. það tókst næstum.  Uppnefni sín og viðurnefni hefur Hanna Birna ekki fengið að ástæðulausu.Hanna Birna tekur ekki rökum. Hún segir t.d. að skattalækkanir fyrir millitekjuhópa komi lágtekjufólki fyrst og fremst til góða. Sömu klísjurnar eru enduteknar æ ogan í æ. Gamla brauðbylsukenningin í nýju formi. Hanna Birna er rökksöm, hún hlær dátt og er hressileg.  Allt sem stjórnin gerir er til að efla kaupmátt í landinu; hver innihaldslaus frasinn á fætur öðrum. Hanna Birna virðist ekki skilja að það eru stuðningsmenn ESB aðildar innan hennar flokks. Hún virðist ekki skilja að það er ríkur vilji hjá kjósendum til að leiða þetta mikilvæga mál til lykta með kosningum um samning eða það sem er einnig kostur að kjósa um áframhald viðræðna. Hún er sammála Össuri í því að afnám gjaldeyrishafta sé mikilvægasta málið.En hvað á að gera í atvinnumáli? Hanna Birna kom ekki með nein dæmi um nýsköpun eða fjölbreytni í atvinulífi. Eðlilegt enda aðhyllist hún lassez faire; snillingarnir í atvinnulífinu eiga að fá að vera í friði og borga lága skatta. Hún vitnar í SA máli sínu til stuðnings. Það auðveldar málin; þeir segja alltaf það sama.  Össur nefndi það að mikilvægt væri að mynda víðtæka sáttum afnám gjaldeyrishafta. Á næstu árum á Ísland marga möguleika en með höftum verður ekkert gerð. Þróunin á Norðurslóðum og hugsanleg ólíuleit lofa góðu. En með höft á fjármagnsflutningum gerist lítið. Niðurstaða: Hanna Birna talaði 85% af tímanum og Össur 15%. Stjórnandi komst aldrei að og saknaði hans enginn. Efnislega kom ekkert nýtt fram í þessum umræðum. Skemmtigildi í slöku meðallagi. 

Forseti Kína fær sér Baozi brauðbollur. Hvað gerir forseti Íslands?

Xi Jinping fór á vinsælt veitingahús í Peking. Frá þessu segir i kínverskum dagblöðum. Forsetinn var einn á ferð. Hann stóð þolinmóður í biðröð og pantaði sér mat. Þegar aðrir gestir veitingastaðarins áttuðu sig á því um hvern var að ræðu tóku þeir upp gsm síma og tóku myndir. Kínverskir bloggarar og þeir sem skrifa athugasemdir í dálkum blaðanna létu ekki sitt eftir liggja. Þetta gera eingöngu þeir leiðtogar sem vilja þjóð sinni el ritar einn. Ég trúi þessu ekki skrifar annar í dálk hjá Dagblaði Alþýðunnar. Forsetinn fer í biðröð, borgar reiknig og nær í matinn sinn! Þetta er leiksýning skrifar annar bloggari. Þið skuluð hæla honum þegar allir í Kína fá nóg að borða. Matur forsetans hefur líkega kostað 16 yuan eða rúmar 2000 kr. Forseti Kína er sextugur og hann er verkfræðingur að mennt. 

En hvernig gætu íslenska útgáfan verið ? Forsetinn fer í hádeginu í Múlakaffi sem er staður þekktur fyrir hefðbundna matargerð og fær sér soðinn saltfisk með hamsatólg og kartöflum. Líklegt verð 1700kr. Sitt sýnist hverjum. Íslendingur á Spáni bendir á að Íslendingar kunni ekki að matreiða saltfisk. Hjartveik kona skrifar að saltfiskur og tólg sé ekki hollur matur. Eiríkur atvikablaðamaður lýsir klæðnaði forsetans og Jónas ritar dóm um allt annan veitingastað. Eygló ráðherra félagsmála bloggar um það hversu gott  það sé að þurfa ekki að borga icesave  og þá geti almenningur bara farið út að borða.....


Átak gegn skattsvikum; hvers vegna er þörf á því?

Ferðaþjónustan er ört vaxandi grein og einstaklingsfrumkvæðið ræður ríkjum. það eru margir sem hlaupa til og vilja fá bita af ört stækkandi köku. Gullgrafarastemming svífur yfir vötnunum. Mikil eftirspurn er eftir gistirými og margir breyta íbúðarhúsnæði sínu í gistirými. Í Eyjum flytja sumir uppá land yfir Þjóðhátið og leigja hús sín. Fyrir hvern og einn einstakling eru upphæðir etv ekki stórar og ekki er víst að allar rati inná skattaskýrslur. Í sumar og haust hafa starfsmenn ríkisskattstjóra skoðað bókhald yfir 700 fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ríkisskattstjóri vill gera gott úr málinu. Hann segir að í langflestum tilfellum hafi um trassaskap og vankunnáttu verið að ræða. Sumir hafi ekki vitað að þeir þyrftu að halda bókhald. Þetta virðist  sérstaklega langsótt. Er hægt að reka ferðaþjónustufyrirtæki og vera á atvinnuleysisbótum og vita ekki að halda þurfi bókhald? Hverjum í ósköpunum er ætlað að trúa þessu? Viðleitni Ríkisskattstjóra er hins vegar virðingarverð. Á undarförnum árum hefur oft verið reynt að meta heildarumfang skattsvika. Tölur á bilinu 4%-7% af landsframleiðslu hafa verið nefndar. Landsframleiðsla 2012 var rúmlega 1700 milljarðar. Samkvæmt því er heildarumfang skattsvika á bilinu 68 Milljarðar til 119 milljarðar. Samkvæmt skýrslu sem samnin var 2004 var umfang skattsvika á bilinu 24-35 milljarðar á verðlagi þess árs. En við hugsum okkur öll viðskipti á einu ári þá eru 5 viðskipti af hverju hundrað skattsvikaviðskipti. Stundum er því haldið fram að skattbyrði sé helsta orsök skattsvika. Hugsanlega skiptir skattalegt siðferði meira máli. Finnst fólki almennt að skattkerfið sé sanngjarnt? Finnst fólki vit í útgjöldum ríkisins? Sá sem brýtur lög verður að gera ráð fyrir refsingu ef (nota bene) eftirlitið er í lagi og verulegar líkur á því að upp um hann komist. Ef eftirlitið er veikt er búið að gefa grænt ljós. Ef refsingar eru vægar er líka búið að gefa grænt ljós. Fyrir hvern einstakling má búa til einfalda formúlu: ávinningur af skattsvikum =undanþeginn skattur mínus viðurlög sinnum líkur á að upp komist um skattsvik.  Ef viðurlög eru lág og líkur litlar verður freistingin mikil. 

Viðskipti Grænlands og Íslands. Ný tækiæri?

Nú er nokkuð um liðið síðan Eiríkur rauði bjó í Brattahlíð. Heiðið var fólk á Grænlandi í þann tíma segir í Grænlendingasögu. Nálægt okkur í tíma er útbreiðsla skáklistarinnar á Grænlandi sem Hrafn Jökulsson og félagar hafa staðið fyrir. Mikið framboð er á spámönnum um þróun Norðurslóða og enn meiri er áhugi ríkra þjóða og voldurga á auðlindum Norðurslóða. Sjávarklasinn( sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftendri starfssemi)  sendi frá sér greiningu um miðjan mánuðinn á þremur blaðsíðum. Þar er bent á mikil umsvif íslenskra fyrirtækja á Grænlandi og mikla aukningu á viðskiptum landanna á síðasta áratug. Er hvatt til þess að löndin geri með sér fríverslunarsamning svipaðan þeim sem Ísland gerði við Færeyjar. Nú er hugsanlegt að siglingaleiðir opnist yfir Norurskautið og aðgengi að náttúruauðlindum verði mun betra. Á Grænlandi eru fyrirsjáanlegar miklar fjárfestingar í námugreftri, olíuvinnsli, ál og  raforkuverum. Innviði skortir og ísland hefur góða möguleika að þjónusta grænlendinga. Árið 2012 var útflutningur til Grænlands 2.6 milljarðar. 85% af innfluttum vörum til Grænlands koma frá Danmörku. Dönsk skipafélög hafa einkaleyfi til ársins 2022. Hoyvíkursamningurinn milli íslands og Færeyja gæti orðið að fríverslunarsamningi vill Grænlands og Íslands. Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar var útflutningur til Grænlands 1.9 milljarðar það sem af er þessu ári. Útflutningur til Færeyja var 5.6 milljarðar.  Útflutningur til bretlands var 46 milljarðar. útflutningur til Þýskalanda  var 64 milljarðar. Útflutningur til USA var 23 milljarðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband