Stríðið í Sýrlandi heldur áfram; ofbeldi, hungur og kaldur vetur.

Stjórnarhermenn, uppreisnarmenn og islamistar berjast af miskunnarlausri hörku. Þótt athygli fjölmiðla heimsins beinist ekki að stríðsátökum breyti það ekki veruleika hinna stríðshrjáðu og þjáðu. Á síðustu vikum hefur stjórnarherinn gert árásir með þyrlum á borgina Aleppo. Sprengjurnar sem varpað er niður sprengja, kveikja í og dreifa málmbrotum um allt. Síðan 15. desember hafa 300 látist þar af mörg börn. Í Sýrlandi er háð blóðugt og grimmilegt borgarastríð. Að undanförnu hefur athygli heimsins beinst að efnavopnum og eyðingu þeirra. Það hefur engu breytt um gang stríðsins. Um stundarsakir hafði einræðisherran Assad betur í áróðurstríðinu. Eftir stríð í 34 mánuði er Assad enn við völd og verður það afar líklega áfram. Menn óttast óvissuna semtæki við ef hann léti af völdum. Í september munaði minnstu að Obama hefði fyrirskipað loftárásir á mikilvæg skotmörk stjórnarhersins. Nú er komin upp ný staða. Tvær hreyfingar berjast gegn stjórnarhernum; uppreisnarmenn sem studdir eru af Sádum og íslamistar sem njóta  stuðnings Qaida. Eitt skortir ekki í þessu stríði,þ.e. aðila sem útvega eða selja vopn.  Þrír stríðandi aðilar sem allir berjast gegn öllum. Engin bandalög. 22 milljónir sýrlendinga eru öðrum háðir um aðstoð. Um mat og lyf. 3 milljónir hafa flúið úr landi og 6 milljónir eru á flótta innanlands. Skólakerfi Sýrlands þótti bera af í arabískum heimi. Nú er það ekki lengur til. 4.8 milljónir barna ættu að vera í skóla en mikill meirihluti  gerir það ekki. Heil kynslóð er að glatast. Í héruðum Kúrda í norðaustur Írak hafa SÞ komið upp mikilli stöð með hjálpargögnum. Þaðan á að dreifa þeim til Sýrlands.

Jólanóttin í þjóðsögum og þjóðtrú.

Það er algengt stef  í þjóðsögum að karl eða kona verði að dvelja ein á bænum á jólanóttu. Þá gátu álfar birtst eða huldufólk og haldið sín jól. Í Eyrbyggju birtast drukknaðir sjómenn á Fróðá og setjast að drykkju.  Það er einn hluti hinna mögnuðu Fróðárundra.Grettir glímdi við Glám hinn sænska á jólum. Þjóðsagnaminni  um álfkonu er tengt jólum. Þræði þjóðsögunnar má lýsa svona með einfölduðum hætti. Óþekkt kona kemur á sveitabæ og gerist vinnukona. Á jólum þegar allir ganga til messu er hún ein á bænum. Ef einhver er hjá henni deyr hann skömmu síðar. Hugrakkur maður njósnar um konuna. Hann sér hvar hún gengur inn í bjargið og er fagnað af álfum. Hildur álfadrottning, svo notað sé þekkt nafn,   dansar á jólanótt en hugrakka manninum tekst að ná í grip til sönnunar. Daginn eftir segir hann bónda alla söguna en álfadrottningin hverfur til álfheima og er laus úr álögum. Þessi söguþráður er til í margvíslegum breytilegum útgáfum.

Þýskaland: ríkisstjórnarflokkar deila um mansal og dvalarrétt.

Jafnaðarmenn og hægri flokkarnir deila nú um túlkun á stjórnarsáttmála. Fyrsta málið var um lágmarkslaun og hvort þau ættu að gilda án undantekninga. Annað málið snýst nú um rétt kvenna sem þvingaðar hafa verið til að stunda vændi til að dvelja í landinu eftir málsmeðferð og réttarhöld. Í stjórnarsáttmálanum segir að vernda eigi konur sem hafa orðið fórnarlömb mansals. Ung rússnesk kona hefur ekki séð ættjörð sína í mörg ár. Hún var seld til Þýskalands og þvinguð til að stunda vændi. Hún er tekin föst vegna ólöglegra skilríkja. Í fangelsi segir hún félagsráðgjöfum sögu sína. En fyrir rétti vill hún ekkert segja vegna ótta. Hún óttast um eigið líf eða öryggi fjölskyldu sinnar í Rússlandi. Ef konan segir ekki frá fyrir rétti og ber vitni er ekki hægt að ákæra þá sem seldu hana til Þýskalands. Konunni verður því að veita réttaröryggi og dvalarleyfi í Þýskalandi. Þetta verður að gilda fyrir þá sem standa utan ESB; þessi er skoðun lögfræðinga hjá stofnun um mannréttindi. Eva Högl sem er lögfræðingur og jafnaðarmaður segir að konan eigi að fá dvalarleyfi í Þýskalandi án þess að vitna fyrir rétti. Hans Peter Uhl úr flokki Merkel kanslara er þessu ekki sammála. Konan verði að taka virkan þátt í réttarhaldinu til að öðlast réttarvernd og dvalarleyfi. Flokkarnir takast á um öll atriði málsins. Er til nægilegt fjármagn til að sinna ráðgjöf fyrir konurnar? Vændiskonur sem hafa verið seldar mansali fá oft ekki nægjanlega læknisþjónustu. Þær hafa ekki rétt á að fá börn sín frá heimalandi sínu til Þýskalands. Konurnar hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi en einnig andlegu. Sagt er við þær: við vitum hvar börnin þín eru og hvar fjölskyldan býr.... Ef ofbeldisverkin koma til kasta dómstóla er konunum dæmdar skaðabætur. Í Hollandi er reglan sú að hafi hinn dæmdi ekki borgað inna 8 mánaða greiðir hið opinbera konunni. Upphæðin getur numið allt að 100000 evrum. Ákvörðun um þetta atriði er í höndum jafnaðarmanna. 

Sinnir kirkjan trúarþörf manna?

Mannfræðin og sögurannsóknir sýna okkur að maðurinn hefur  djúpa þörf fyrir hið yfirnáttúrulega og að skynja hið yfirskilvitlega í veruleikanum. Menn óttast æðri mátt og það sem er fyrir handan. Hefðir krikjunnar eru hins vegar kaldar og sérteknar. Þær virðast ekki snerta fólk. Alls konar hjátrú er hluti af daglegu lífi fólks og lifir góðu lífi þrátt fyrir upplýsingu og vísindi.( 7, 9, 13, og svartir kettir, hæð númer 13,,,) Málverk seljast á stjarnfræðilegar upphæðir, norskar prinsessur reka skóla sem kenna fólki að tala við engla en krikjusókn minnkar. Hjá kaþólikkum er trúarþörfinni sinnt á myndrænni og nærtækari hátt en hjá mótmælendum. Maríudýrkun og messuformið benda til þess. Guðfræðin er þurr og fjarlæg daglegu lífi fólks. Guð kristinna manna er illskiljanlegur; hann er einn og þríeinn, allsstaðar og eilífur og almáttugur. Og hann er lika kærleikur. Skapari tíma og rúms. Stór hluti Íslendinga veit lítið um kenningar Þjóðkirkjunnar. Í Buddadómi er enginn guð en Búdda sjálfur verður þá guð á sama hátt og María guðsmóðir er tilbeðin hjá kaþólikkum. Kirkjur eru skipulagðar stofnanir að hætti regluveldis. Þær eru ekki helsti  eða besti vettvangur trúarreynslu og trúarlegrar upplifunar. Jakki Michaels Jackson var sleginn á nærri 2000000 dollara 2011. Jakkinn er trúartákn eða blæti. Hann er talinn búa yfir töframætti. Tebolli sem Lady Gaga drakk úr á tónleikaferð til Japans seldist á 58000 evrur á online uppboði.  Augun hafa mátt. Margir telja sig skynja augnaráð. Þetta á rót sína að rekja til miðalda. Til hliðar við krikjur og kenningar þeirra lifir margvísleg trú góðu lífi. 

Þorlákur helgi og Þorláksmessa.

Þorlákur helgi Þórhaldsson er verndardýrlingur Íslands samkvæmt ákvörðun Stjórnardeildar sakramenta og guðsdýrunar í Páfagarði. Þessa ákvörðun samþykkti Jóhannes Páll 2  í janúar 1984. Þorlákur helgi var prestur, munkur, ábóti og biskup í lifanda lífi. Hann var strangtrúaður og heittrúaður og vildi efla vald kirkjunnar sem stofnunar á sinni tíð. Hann vildi bæta siði presta og almennings. Meðan hann var biskup í Skálholti hélt hann í öllu daglegum háttum kanokareglu. Til eru Jarteinabækur Þorláks helga og enn eru sungnar Þorlákstíðir. Þorlákur helgi var mjög lærður maður í guðfræði. Hann dvaldi áratug í París og Lincoln og nam guðfræði. Mikill átrúnaður var á Þorláki helga hér á landi.Í Færeyjum tók hann á sig mynd jólaveins í þjóðtrú. Þorlákur lést 23. 12. 1193 og var árið 1199 messudagur tekinn upp honum til heiðurs og lögleiddur. Í lútherskum sið er lítið um helgihald á Þorláksmessu. Sumir vitja leiði ástvina sinna. 

Stóra glærusýningin mistókst; hvað varð um heimsmetið?

Búið var að tillkynna um heimsmet í skuldaleiðréttingum. Nefnd undir formennsku stærðfræðidoktors fékk það hlutverk að útfæra hugmyndir. Seint og um síðir var skýrslu skilað og mikil sýning var sett á svið. Spunameistarar og almannatenglar höfðu unnið baki brotnu. Ráðherrar fluttu stutt ávörp. Stærðfræðidoktorinn hélt mikla og flotta glærusýningu.Glærurnar voru flottar. Dæmin voru líka flott en það vantaði innihald og það sem mestu máli skipti; fjármagn.Upphófust nú miklir útreikningar vítt og breitt um þjóðfélagið. 300 milljarðar urðu skyndilega 60 milljarðar. Heimilin í landinu urðu skyndilega útvalin heimili. Og hver er nú niðurstaðan? Kjósendur láta sér fátt um finnast skv nýjustu skoðanakönnun Gallup. Helsta breytingin er að Píratar(sic) bæta við sig 2%! Eftir heimsmetið er stjórnin með 48% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi. Framsókn er nú 9% minna fylgi en hún fékk í kosningum. Hvernig væri nú að reyna aftur við heimsmet?

Þýskaland; deilur um lágmarkslaun milli stjórnarflokkanna.

Horst Seehofer (CSU) vill gera undantekningar varðandi lágmarkslaun. Vinnumálaráðherrann Andrea Nahles(SPD) er á annarri skoðun. Seehofer vill gera undantekningar varðandi lærlinga og ellilífeyrisþega. Ráðherra efnahagsmála í Bæjaralandi hefur einnig lýst sömu skoðun. Með þessu ganga þau gegn stjórnarsáttmálanum. Bæði segjast þau óttast að lágmarkslaun án undantekninga muni fækka störfum. Í stjórnarsáttmálanum er sagt að 8.5 evrur á tímann eigi að vera lágmarkslaun í öllu landinu í seinasta lagi árið 2017. Nahles hafnar hugmyndum Seehofer algerlega. Þann 1.1.2017 verða lágmarkslaun í landinu 8.5 evrur ef ekki verður stjórnarsamstarfinu lokið. Seehofer telur sjálfan sig sveigjanlegan (sic). Í kosningabaráttunni hafnaði hann algerlega skattahækknum en samþykkti síðan skattahækkanir í stjórnarsáttmála. 

Er vændi líka vinna?

Ef vændi er bannað með lögum hverfur það ekki. Það sem verra er; ofbeldi og kúgun virðast aukast. En hvað er þá til ráða? 28 dollara á tíman gátu götumellur í Chicago þénað fyrir nokkrum árum. Þetta kom fram í rannsókn tveggja hagfræðinga. Þetta voru fjórum sinnum hærri laun en ófaglærðir gátu fengið á sama tíma. En þetta var ekki fengið með sitjandi sældinni. Í 300 skipti á ári að meðaltali urðu konurnar að hafa samfarir án þess að nota verjur. 12 sinnum á ári urðu þær fyrir ofbeldisárás. Reglulega tók lögreglan þær fastar þar sem vændi er ólöglegt. Til þess að losna við handtöku urðu konurnar að hafa samfarir við lögreglumenn án borgunar. En hvernig er hægt að skapa markað fyrir vændi þar sem konurnar eru lausar við ofbeldi og kúgun? Af margvíslegum ástæðum,m.a. siðferðilegum er erfitt að fá áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega markaði. Það virðist ljóst að bann gerir vændi hættulegt. Upplýsingar verða bjagaðar. Vændiskonurnar vita ekki hversu áreiðanlegir kaupendur vændis eru. Viðskiptavinirnir hafa bjagaðar upplýsingar um hversu góðar vændiskonurnar eru. Slíkar aðstæður eru heppilegar fyrir melludólga. Þeir veita konunum ákveðna vernd og öryggi sem leiðir til þess að þær geta sett upp hærra verð. Melludólgarnir velja viðskiptavinina og útvega húsnæði. Óvissa vegna skorts á upplýsingum verður minni fyrir konurnar. Vændiskonur geta einnig tekið að hlutverk melludólga. Fylgdarkonur í New York notuðu t.d. heimasíðu til að vara hver aðra við svikulum og ofbeldisfullum vændiskaupendum. Ef vændi er bannað geta vændiskonur ekki snúið sér til lögreglu ef á þeim er brotið. Þannig skapar bannið kerfi valds og varnarleysis. Það að lögleyða leysir ekki öll vandamál. Sum vandamál verða mun erfiðari. Reynsla Þýskalands sýnir að vændismarkaðurinn verður mun stærri en kúgun vændiskvenna einnig meiri.

Var Jesus pólitískur uppreisnarmaður?

Reza Aslan er bandarískur trúarbragðasagnfræðingur og prófessor við University of Calefornia , Riverside. Á þessu ári kom út bók eftir hann sem heitir : Zealot. The life and time of Jesus of Nazareth. Viðtal Fox fréttastofunnar við Aslan vakti mikla athygli á sínum tíma. Í raun og veru er merkilegt að nokkuð sé vitað um Jesus ritar Aslan þegar litið er nánast algjöran skort á frumheimildum um ævi Jesus. Nú er flókið mál að gera grein fyrir heimildargildi guðspjallanna enda eru þau ekki sagnfræðirit. Sagnfræðingarnir Tacticus, Josefus og Plinius yngri minnast allir á Jesus og það er 60 árum eftir að atburðirnir gerðust. I þeirra ritum er Jesus einn af mörgum trúarleiðtogum sem eru dæmdir og teknir af lífi. Í margar aldir hafa guðspjöllin verið túlkuð og hugmyndir manna um Jesus hafa breyst og þróast. Í meginatriðum eru þær sjö; Jesus var pólitískur byltingamaður, hann bjó yfir yfirnáttúrulegum lækningamætti, hann var leiðtogi með náðargáfu, hann var rabbíi, hann tilheyrði ákveðinni hefð farísea og hann var spámaður sem boðaði heimsslit og komu guðsríkis. Aslan heldur því fram að Jesus hafi verið pólitískur byltingarmaður knúinn áfram af trúarhugmyndum. Hann hafi fylgt hinu gyðinglega lögmáli og lifað meinlætalífi. Jesus ógnaði þeim sem stjórnuðu musterinu og hann ógnar um leið rómverskum yfirráðum. Frásagnir guðspjallanna hafa höfðað til fólks í margar aldir og snert hjörtu þess. Jesus er svikinn, niðurlægður og krossfestur. Trúarupplifun er einnig sögulegur veruleika en um þann þátt fjallar bók Reza Aslan ekki. (Klassekampen).

Stríð gegn jólunum?

Kristin trúarhátið gæti einkennst af auðmýkt, bænum, hógværð og náungakærleika. En þetta er ekki sýn stórfyrirtækja. Jólin eru markaðstækifæri og það ber að nýta. Risarnir í kvikmyndagerð framleiða hverja jólamyndina á fætur annarri. Hver jól hafa sína óskagjöf. Það er raunverulegt stríð gegn kristnum anda jólanna og það er háð vegna hagnaðar stórfyrirtækja.  það eru undarlegar mótsagnir. Jesus kom í heiminn til að frelsa alla menn einnig þá sem eru fátækir og veikir. Kristinn boðskapur hafnar auðsöfnun og mammonsdýrkun. Þeir sem fjárfesta í jólaviðskiptum hafa líklega allir heyrt líkinguna um úlfaldann og nálaraugað. Neysluhyggja og efnishyggja; er kristin þjóð sátt við að þetta einkenni jólahátíðina? Valda-og eignastétt samfélagsins er í undarlegri mótsögn. Í orði kveðnu vill hún viðhalda kristnu formi jólanna og varðveita jólasiði og jólavenjur. Hins vegar hagnast hún á því að markaðssetja jólin. Siðferðilegur grunnur jólanna er að þynnast. Helgirit auðsöfnunar eru hin raunverulegu rit samfélagsins. Ýmis ummæli Frans páfa hafa vakið athygli og vakið von einhverra.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband