Færsluflokkur: Bloggar

Nóbelsverðlaun fyrir Robert Shiller....

Robert Shiller og tveir aðrir amerískir hagfræðingar fengu Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár. Í rannsóknum sínum hafa hagfræðingarnir rannsakað hvenær fjármálamarkaðir eru skilvirkir og hvenær þeir bregðast. Ásamt Shiller fengu E Fama og L P Hansen verðlaunin. Þeir hafa rannsakað verðmyndun á hlutabréfum og öðrum fjármálaeignum. 1981 skrifaði Shiller ungur að árum grein það sem hann sýndi fram á að sveiflur í verði hlutabréfa væru mun meiri en ætla mætti út frá væntum arðgreiðslum. Og það sem meir er það er hægt að segja fyrir um hvernig sambandið milli arðgreiðslna og verðs á hlutabréfum er. Aldamótaárið ritaði Shiller bók þar sem hann sýndi fram á að hlutabréfamarkaðir myndu hrynja á komandi árum. Hann sagði einnig fyrir um hrun fasteignamarkaðarins í USA 2007. Gagnrýnendur fjármálamarkaðarins hafa gjarnan litið til Shiller; fjárfestar hegða sér oft óskynsamlega hvort sem það er af ofmati á sjálfum sér eða vegna hjarðhegðunar. Skoðanir verðlaunahafanna þriggja eru mismunandi og rannsóknaráherslur mismunandi. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þeir hljóti verðlaunin saman. 

Írland ; keltneskt tigrisdýr í kreppu.

Eftir fjármálakreppuna hefur atvinnuleysið á Írlandi ekki farið niður fyrir 13%. Á árunum 2002 til 2007 var atvinnuleysið um 4%.  Á árunum 1995 til 2000 var afar ör hagvöxtir á Írlandi. Innan OECD var Írland í fjórða sæti hvað varðar landsframleiðslu á mann. Mörg alþjóðleg tæknifyrirtæki kusu að fjárfesta í landinu og þungamiðja hagkerfisins færðist frá landbúnaði yfir í þekkingariðnað. Árið 2005 komst tímaritið The Economist að því að bestu lífsgæðin væru á Írlandi.  Á árunum 2007 til 2009 dregst hagkerfið saman. Skuldir heimila eru afar háar á Írlandi. Fasteignamarkaður og byggingarfyrirtæki hrundu í kreppunni. Brask leiddi til bólu sem ógnar enn stöðu bankanna. Írsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau tryggi bankana. AGS og Seðlabanki Evrópu hafa sett ströng skilyrði fyrir lánveitingum. Aðgerðaáætlun AGS er brátt lokið og Enda Kenny forsætisráðherra hefur lýst því yfir að björgunaraðgerðum ljúki um miðjan desember. Írland er eins og kunnugt er hluti af evruvæðinu en áður var írska pundið ávallt tengt breska pundinu. Írland hefur því ekki haft sjálfstæðan fljótandi gjaldmiðil.

Kristilegir demókratar og jafnaðarmenn mynda stjórn í Þýskalandi.

Nú virðist allt benda til þess að ný stjórn sé að verða til í Þýskalandi. Núna þremur vikum eftir kosningar til sambandsþingsins bendir allt til þess að stjórnarmyndun stóru flokkanna, CDU, CSU og SPD sé að hefjast. Jafnaðarmenn gerðu lög um lágmarkslaun að forsendu stjórnarmyndunar. 8.50 evrur á tímann. Nú virðist samkomulag geta náðst um þetta atriði. Jafnaðarmenn draga til baka kröfu sína um -euro bond-skuldabréf sem væru innleysanleg í öllum bönkum evrusvæðisins. Í skattamálum virðast flokkarnir hafa nálgast hvort annan.  Viðræður fara fram milli forystumanna flokkanna en sérfræðingar hinna ýmsu málaflokka bera einnig saman bækur sínar. Fylgi við samstarf við hægri flokkana virðist fara vaxandi innan jafnaðarmannaflokksins. Græningjar virðast ekki geta verið með. Þeir eru í sárum eftir kosningaúrslitin og forysta flokksins hefur sagt af sér. Enn er hluti jafnaðarmanna vantrúaður á stjórnarsamstarfið. En ráðherraskipan skiptir miklu. Ef jafnaðarmenn fengju fjármálaráðuneytið yrðu margir ánægðir. (Der Spiegel)

AGS um skatta á eignir og fjármagnsviðskipti.

Eignadreifing er mun ójafnaðri en tekjudreifing í þróuðum iðnríkjum. 10% þeirra sem mestar eignir eiga eiga að meðaltali helming allra eigna heimlia. Í USA er talan reyndar 75%. Eignaskattar eru mjög lágir í löndum OECD eða tæplega 2% af vergri landsframleiðslu. Skattar á eignir og fjármagnsflutninga eru mismunandi: a)skattar á húseignir og landeignir, b) skattar á sölu eigna eða hlutabréfa , c) skattur á flutnigns auðs,t.d. vegna erfða eða gjafa, d)skattur á hreinar eignir ; var hér og á Spáni og er til umræðu víða. Breytingar á sköttum eru flóknar og erfitt að koma þeim í framkvæmd. Það er auðveldar ef vel gengur í efnahagsmálum og breið pólitísk samstaða er um stefnuna.  Skattbyrði ríkasta eins prósents fjölskylda  hér á landi var undir 20% á árunum 2001 til 2008. Lægst var hlutfallið 13% árið 2007. (Heildarskattar sem hlutfall af heildartekjum) 2007 báru fjármagnstekjur 10% skatt.  Mörg lönd Evrópu eru í djúpri efnahagslegri kreppu. Milljónir manna lifa í fátækt og á mörkum fátæktar. Á sama tíma lifir fámennur forréttindahópur í lúxus sem verður þeim mun afkáralegri sem krreppan dregst á langinn. 

AGS um skuldir ríkissjóðs, hagvöxt og ríka fólkið.

Nýlega gaf AGS út ritið Fiscal Monitor (October 2013). Þar er því haldið fram að dökk ský séu á himni. Ríkissjóðir þróaðra landa séu mjög skuldsettir og það hindri hagvöxt. Veikleikamerki séu einnig í efnahagsþróun fátækari ríkja. Dæmi eru tekin af Japan og USA sem mjög skuldsettum ríkjum. En er hægt að skattleggja meira, betur og á réttlátari hátt? Aukin skattlagning á auðvitað ekki að hafa öfug áhrif eins og að draga úr hagvexti. AGS telur að svigrúm sé til þess hjá mörgum þróuðum þjóðum að skattleggja hæsta tekjuhópinn meir. En sérstaklega er hægt að hækka skatta verulega á eignir,þ.e. hækka ýmiskonar eignaskatta. Fjármagn er mjög hreyfanlegt og skattkerfisbreytingar eru auðvitað gagnlausar ef þeim er ekki fylgt eftir með alþjóðlegri samvinnu og eftirliti. --Eftirlitsstofnanir bregðast við en þær taka ekki frumkvæði. það sem verra er að þær eru afar lengi að bregðast við. Í Kommúnistaávarpinu sem ritað var um miðja 19du öld er því lýst hvernig kapitalískir framleiðsluhættir leggja undir sig alla jörðina og brjóta á bak aftur aðra framleiðsluhætti. Kapitalisminn er gífurlegt framfaraskeið í sögu mannkyns og hefur skapað meiri auð en nokkurn tíma hefur verið til. Misskipting auðsins er hins vegar skelfileg.

Þjóðkirkjan í fortíð og framtíð.

Engum dylst að á undanförum árum og áratugum hefur þjóðkirkjan átt í vök að verjast. Fyrir rúmum 20 árum voru 92% landsmanna í Þjóðkirkjunni en núna er hlutfallið 76%. Á síðustu 3 árum hafa 10000 manns sagt sig úr kirkjunni. Frjóðlegt væri að sjá tölur um messusókn eða aðrar tölur sem sýna þátttöku í kirkjulegu starfi. Engin ein skýring er á þessari þróun. Á Vesturlöndum hefur vald trúarlegrastofnana farið mikið minnkandi. Þar með er ekki sagt að trúarþörfin minnki. Í kaþólska kirkjunni  hefur orðið fjölgun hér á landi af íslenskum ríkisborgurum en flestir sem gengið hafa úr Þjóðkirkjunni standa væntanlega untan kirkjudeilda. Evanigelíska-lútherska kirkjan sem er ein af kirkjudeildum hinnar lúthersku kirkjudeildar ( mótmælenda) heitir Þjóðkirkjan hér á landi. Orðið er komið úr þýsku-Volkskirche- og mótað af F Schleiermacher. Samkbæmt þessu á Þjóðkirkjan að vera holdgervingur menningarlegrar einingar þjóðarinnar. Samkvæmt eigin skilningi er kirkjan því ekki ríkiskirkja. Samkvæmt lögum er kirkjan sjálfstætt trúfélag sem ríkisvaldið styður og verndar. En trúfrelsi er einnig verndað samkvæmt stjórnarskrá og hér virðist vera misræmi. Rekstur þjóðkirkjunnar er -sem kunnugt er- liður á fjárlögum. Árið 1907 voru sett lög um sölu kirkjujarða til ríkisins. Skyldi verðmæti og arður af jörðunum tryggja laun presta(!!). Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir öll trúfélög. Ríkið verndar ekki krikjuna með fjárframlögum eingöngu heldur rekur sérstakt ráðuneyti, á starfatorgi eru aulýst störf presta, setning Alþingis(löggjafarvaldsins) virðist vera krikjuleg trúarathöfn, kirkjan hefur mjög greiðan aðgang að opinberu skólastarfi, Háskóli Íslands menntar presta Þjóðkirkjunnar og loks hefur kirkjan greiðan aðgang að opinberum fjölmiðlum. Í mörg ár hefur komið í ljós í skoðanakönnunum að meirihluti er fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er ljóst að aðskilnaður er ekki vandalaus eða einfaldur. Líklega yrðu meintar kirkjujarðir helsta tromp guðsmanna í samningum við ríkið. 


Þingmaður trúir þjóðinni fyrir leyndarmáli.

Fyrir 3 dögum skrifaði Elín Hirst blaðagrein. Þar segir hún frá samtali sínu við sérfræðilækni á landsspítalanum. Læknirinn talaði umbúðalaust og lýsti ástandinu eins og það er. Allt það sem hann segir er rétt og hefur margoft og ítrekað komið fram í blaðagreinum, fréttum, tímaritsgreinum, yfirlýsingum samtaka lækna og fleiri samtaka og margra fleiri aðila. Fyrrverandi forstjóri Landsspítals hefur lýst því að spítalinn hafi verið í fjársvelti á "góðæristímanum". Tækin voru sem sagt ekki öll ný og glansandi þegar vinstri stjórnin tók við!! Atgervisflóttinn hefur verið til umræðu eftir hrun en einngi á árunum fyrir hrun. Mjög harðar launadeilur hafa verið innan spítalans. Allt þetta veit sæmilega velupplýst fólk og hefur vitað lengi. En Elín Hirst, hvar hefur hún verið öll þessi ár? Enginn virðist vita hvar Brynjar Níelsson hefur verið en hvað um það. Hvorug virðast þau hafa verið á þingflokksfundi þegar fjármálaráðherra kynndi frumvarp til fjárlaga. Það er merkilegt. Ísland er fámennt þjóðfélag en stundum er undarlega langt milli manna og stofnana. 

Noregur; vill hægri stjórnin takmarka frelsi blaðamanna?

Hægri flokkarnir vilja takmarka aðgengi blaðamanna að upplýsingum um tekjur og eignir einstaklinga. Flokkarnir vilja að allri sem fengnar eru upplýsingar um verði tilkynnt hver fær upplýsingarnar og til hvers þær verða notaðar. Það er verið að hækka þröskuldinn; það verður ekki jafn auðvelt að segja fyrirferðarmiklar fréttir af tekjum og eignum (eða litlum tekjum og miklum eignum) þekktra persóna í þjóðlífinu. Samtökum norskra blaðamanna líst afar illa á þessar fyrirætlanir. Blaðamenn hafa samfélagslega ábyrgð. Það er ekki á valdi einstakra þingmanna að setja forskriftir um hvað er við hæfi og hvað ekki. Hægri menn bera fyrir sig persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Það er hins vegar vandséð hvernig skipting þjóðartekna og þjóðarauðs getur verið einkamál. Auðæfi verða til með samfélagslegri vinnu margra en ekki töfrabrögðum " snillinga" í markaðsviðskiptum.  Velferðarkerfið grundvallast á lögmæti. Þeir sem borga í kerfið gera það á lögmætum og löglegum grundvelli. það sama gildir um þá sem fá bætur úr kerfinu. Það sama á að gilda um eignamyndun og tekjumyndun. 

Misskipting auðæfa þjóðanna.

1% eiga 41% heildarauðs þjóðanna. Ríkustu 10% eiga 86%. Sá helmingur mannkyns sem minna á á 1% auðsins. 8.4% allra fullorðinna í heiminum eiga 84.3% af öllum eignum heimilanna ,þ.e. landeignir, húsnæði og fjármuni;hlutabréf og sparifé. Hrein eign 393 milljóna manna er 86% af öllum eignum heimila. Tveir þriðju allra fullorðinna í heiminum eiga minna en 10000 dollara(1.2 milljón íslenskra króna)og 3.2 milljarðar manna eiga engar eignir. 98700 einstaklingar eiga hins vegar meira en 50 milljónir dollara hver. Helmingur þeirra býr í USA.  Allar þessar tölur eru fengnar úr nýrri skýrslu Credit Suisse Bank og þær eru í samræmi við skýrslur sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Misskiptingin er einnig innan hver ríkis. Nefna má Bretland sem dæmi. Þar er hreyfanleiki milli stétta lítill. Þeir sem fæðast inní ofurríka fjölskyldu verða ofurríkir. Ríkasta tíundin á 4.4 sinnum meira en sá helmingur þjóðarinnar sem minna á. Ríkustu 20% eiga 62% af öllum samanlögðum eignum heimila. frjáls markaður, frjáls viðskipti milli manna og jöfn tækifæri eru lykilatriði í hugmyndafræði markaðshagkerfis. Veruleikinn er greinilega allt annar. 


Fátækt þjóðanna.

1.2 milljarður manna lifir í sárri fátækt. Til framfærslu hefur hver manneskja minna en 1.25 dollara á dag. Af þessum fjölda eru börn 400 milljónir.  Fátæktarmörk i USA eru 60 dalir fyrir fjórar manneskjur á dag. Það að fá ekki nóg að borða er hlutskipti þeirra sem lifa í sárri fátækt. Og þetta er 21. öldin. Þeim sem lifa í sárri fátækt hefur fækkað umtalsvert undanfarna þrjá áratugi. Þjóðarauður Kína og Indlands hefur vaxið hratt og það skýrir fækkunina að mestu leyti. Það er einkum í Kína sem baráttan gegn fátækt hefur skilað árangri.  Þeim sem lifa í sárri fátækt hefur hins vegar fjölgað í mörgum ríkjum Afríku. Stór hluti þeirra hefur ekki aðgang að hreinu vatni eða hreinlætisaðstöðu. Þá síður aðgang að rafmagni. Flestir lifa í sveit eða strjálbýli. Fátæktin er ekki örlög eða vilji guðs. Hvorki í Afríku né hér á landi. Henni er hægt að útrýma með pólitísku valdi ef vilji er fyrir hendi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband