Færsluflokkur: Bloggar

Dómur í Al-Thani málinu og efnahagsafbrot í Noregi.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur hefur kallað fram margvísleg viðbrögð. Undarlegust er þó skrif þekkts lögmanns og þingmanns. Í framtíðinni , ritar hann, mun hann ekki starfa í bankakerfinu amk ekki hér á landi. Góð laun réttlæti ekki áhættuna. Það er alveg sama hversu lengi og mikið er um þetta hugsað. Hér er ekkert vitrænt samhengi. Víkur nú sögunni til Noregs. Í febrúar birtist grein um hvítflibbaglæpi fólks í stjórnunarstöðum í þekktu tímariti um stjórnun. Í greininni eru mál 305 dæmdra sakamanna rannsökuð og þeim skipti í 4 flokka: sjálfstæðir atvinnurekendur, starfsmenn stórra fyrirtækja, fylgjendur og konur sem fremja afbrot. Þeir sem vinna hjá stórfyrirtækjum eru umsvifamestir hvað fjárupphæðir varðar. Hjá konunum eru upphæðirnar lang minnstar. Refsing starfsmanna stórra fyrirtækja virðist vægari en refsing sjálfstæðra atvinnurrekenda. Í greininni er reynt að svara eftirfarandi: hvaða hópa er hægt að greina meðal þeirra sem fremja efnahagsafbrot og hver er munurinn á þessum hópum? Einstaklingarnir 305 eru allt þekktir menn í Noregi,fyrirtækin eru þekkt og njóta virðingar, afbrotin höfðu mikil áhrif, þau snertu grundvallaratriði réttarkerfisins og vöktu á sínum tíma mikla athygli fjölmiðla. Af 305 manna hóp voru 26 konur. Að meðaltali var einstaklingur dæmdur 5 árum eftir afbrot. Meðalaldur við dómsuppkvaðningu var 48 ár. Meðalrefsing var 2.2 ár í fangelsi. Mesta refsing 9 ár og minnsta refsing 15 dagar. Meðalupphæð í afbroti var 46 milljónir norskra króna. (880 milljónir íslenskar; lauslega reiknað). Sjálfstæðir atvinnurekendur voru gjarnan þeir sem voru að hefja rekstur fyrirtækis. Stór hluti fyrirtækja sem stofnð er nær ekki að lifa lengi. Ef menn eru hvatvísir, taka mikla áhættu og eru sjálfhverfir er ekki að sökum að spyrja. Starfsmenn fyrirtækja fremja afbrot til að bæta stöðu fyrirtækisins eða bjarga því frá falli og ætla að hagnast sjálfir í leiðinni. Við vissar aðstæður virðist siðferði í stórum fyrirtækjum hrynja (moral collapse). Fylgjendur fá lang stystu dómana og lægstu upphæðirnar eru hjá konunum í hópnum.(www.scholink.org)

Naomi Wolf: klám eyðileggur kynlíf.

Naomi Wolf er þekktur bandarískur femínisti og rithöfundur. Hún ritaði nýlega grein í Mail Online. Í nýlegri breskri rannsókn kom í ljós að fólk stundaði mun sjaldnar kynlíf nú en það gerði fyrir 10 árum. Rannsóknin var víðtæk og náði til 15000 manns á aldrinum 16 til 74 ára. Wolf telur að klám hafi neikvæð áhrif á kynörvun og kynsvörun fólks. Hún hefur nýlega endurútgefið bók sína Vagina : A New Biography. Í bókinni er fjallað um nýjar rannsóknir í lífeðlisfræði sem benda til þess að klám hafi bæði neikvæð áhrif á kynlíf og sambönd fólks. Í kvikmyndum kemur þessi þróun í ljós. Kvikmyndin Don Jon fjallar um klámfíkn. Söguhetjan sefur hjá Scharlett Johansson en læðist í burtu til að horfa á klámmynd.  Aukið ofbeldi er greinilegt í klámmyndum. Nú er það orðinn algengur hluti af skyndikynnum ungs fólks að karlinn grípi um háls konunnar. Sá sem verður háður klámi þarf sífellt stærri og sterkari skammta til að ná sömu örvun. Klámfíkn er lík annarri fíkn. Sá sem horfir á ofbeldi verður smám saman ónæmur fyrir ofbeldi. Flestar klámmyndir eru lélegt kennsluefni segir Wolf. Þær kenna ekki ungum mönnum hvernig þeir eiga að örva ungar konur. Klámið er allstaðar á netmiðlum, samskiptasíðum og svo frv. Það hefur óhjákvæmilega áhrif á líf ungs fólks. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að nærri helmingur ungra manna horfir á klám meira en hálfa klukkustund á dag. Á sjöunda áratugnum voru sígarettur markaðssettar en ekkert var minnst á skaðleg áhrif. Sagan virðist vera að endurtaka sig. Klámiðnaðurinn veltir milljörðum og það eru miklir hagsmunir í húfi. En heilsa fólks er líka í húfi og skiptir meira máli. (Mail Online).

Clint Eastwood og ríkisstjórn Íslands.

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa fengið öflugan bandamann. Clint hefur nú tekið eindregna afstöðu gegn niðurskurðarstefnu stjórnvalda í kvikmyndagerðinni. Hollywoodleikari skilur auðvitað mætavel efnahagslegt mikilvægi kvikmyndagerðar og neikvæð áhirf niðurskurðar. Kvikmyndin er listform síðustu aldar og líklega þessarar aldar á sama hátt og óperan var listform 19du aldar. Clint er ekki nýgræðingur í stjórnmálum. Hann gekk í Repúblikanaflokkinn 1952. Hann er þó engan veginn venjulegur íhaldsmaður. Hann sagði sig úr flokknum og telur sig frjálslynda utan flokka. Clint var borgarstjóri í Carmel by the Sea í Kaliforníu í tvö ár. Þann tíma beitti hann sér mikið í umhverfismálum. Clint hefur verið mikill kvennamaður. Hann hefur átt í ástarsamböndum við m.a. : Catherina Deneuve, Jean Seberg (báðar franskar leikkonur) og Anithu Lohest en hún var afrekskona í sundi. Clint mun eiga fjögur börn með þremur konum. Clint lék í sinni fyrstu kvikmynd árið 1955. Á sjöunda áratugnum lék Clint í spaghetti vestrum en þær myndir eru nú klassískar.

Gjafir ríkisstjórnarinnar til þeirra sem minnst mega sín en breiðu bökin.....

1. Gjafir.

Veiðigjald var lækkað um 6.4 milljarða á næsta ári.

Vaskur var lækkaður á ferðaþjónustu sem nemur 1.4 milljörðum.( Gjöf til erlendra ferðamanna og greiði við grein í mjög örum vexti.)

Makrílkvóti fer varanlega í kvótakerfið. Markaðsvirði 100 milljarðar.

Auðlegðarskattur felldur niður. 9.1 milljarður. Samkvæmt dómi stenst skatturinn stjórnarskrá.

2. Breiðu bökin.

Ríkisútvarpið; niðurskurður um 500 milljónir.

Framhaldsskólarnir ; sparnaður 1.5 milljarður.

Kvikmyndagerð; sparnaður 400 milljónir.

Vaxtabætur; lækkun ( tölur breytilegar)... 

þróunarmál; lækkun 400 milljónir

Barnabætur;--hver er staðan? lækkun; ....

Upptalning er ekki tæmandi.

Guðlaugur Þór hefur réttilega bent á mikilvægi þess að jafnvægi sé í ríkisfjármálum. Almennt séð er það rétt en það getur ekki verið skynsamleg stefna að skerða tekjuöflunarmöguleika ríkissjóð.  Hagfræðileg rök mæltu með annarri leið....

 


Sagði forsætisráðherra ósatt á Alþingi?

Sinn er siður í landi hverju. Í Danmörku segir ráðherra af sér vegna þess að hann hafði sagt þingnefnd ósatt. Þingmenn eru þjóðkjörnir fulltrúar og hafa lögbundið eftirlitshlutverk með framkvæmdavaldinu. Forsætisráðherra er æðsti handhafi framkvæmdavalds og sá sem samhæfir störf ríkisstörf ríkisstjórnar og stýrir ríkisstjórnarfundum. Nú bregður svo undarlega við að SDG kannast ekki við eigin orð sem hann hefur þó sannanlega sagt úr ræðustól á Alþingi. Auk þess sakar hann fréttatofu Rúv um að segja ranglega frá. Þegar þingmenn greina efnislega rétt frá ummælum Formanns fjárlaganefndar kallar forsætirráðherra það getgátur og rangar forsendur. Pólitískur stíll forsætisráðherra er undarlegur og í reynd hættulegur lýðræðislegri umræðu. Andstæðingar eru sakaðir um að fara með lygar, fyrirfram lygar og rangfærslur af illum hug. Menn með ólíka lífssyn , stefnu og forgangsröðum eru samkvæmt þessu ekki að skiptast á skoðunum og rökræða. Sumir fara með rétt mál en aðir eru með getgátur og rangfærslur sem hinn alvitri verður að leiðrétta. Hrokinn er barnslegur en yfirgengilegur. En nú er spurningin. Hvað vilja íslendingar? Á landið að vera lýðræðisríki og réttarríki eða banalýðveldi(eða þorsklýðveldi)? Þjóðin hefur valdið.

Hagfræðideild Landsbankans gagnrýnin á áform ríkisstjórnarinnar.

Umsögn Landsbankans er fyrir margra hluta sakir fróðleg lesning. Fyrst er því slegið föstu að áætlaðar aðgerðir séu töluvert umfangsminni en kosningaloforð og fyrirheit gáfu til kynna. Frá hagfræðilegu sjónarmiði er það talið jákvætt. Í öðru lagi er þeirri fullyrðingu hafnað að aðgerðirnar séu fullfjármagnaðar og áhrif á ríkissjóð séu óveruleg. Í fjórða lagi er bent á fórnarkostnað af áætlaðri ráðstöfum hugsanlegra/væntanlegra skatttekna.Fjármunina hefði mátt nota á annan hátt.  Í fimmta lagi er bent á að mikill meirihluti heimila telji samkvæmt könnunum að áhrif væntanlegra aðgerða verði lítil eða engin. Í sjötta lagi er bent á að hluti þeirra sem fái niðurfærslu skulda hafi ekki þörf fyrir það sé tekið mið af tekju-og eignastöðu. Í sjöunda lagi er tekið fram að gangi áætlanir eftir munu þær einar og sér leiða til hækkunar vísitölu um 1.1%. Í áttunda lagi er bent á svokölluð auðsáhrif,þ.e. bætt eigna-og skuldastaða hefur srax áhrif á einkaneyslu. Í níunda lagi er varað við þenslu-o verðbólguáhrifum ráðgerðra aðgerða. Dixit.

Úrúgvæ lögleiðir kannabis.

Landið er í fyrst í heiminum til að stíga þetta skref. Ræktun og viðskipti munu fara fram undir eftirliti ríkisstofnana. Lögin taka gildi í apríl á næsta ári. I Senatinu voru lögin samþykkt með mjög naumum meirihluta.Það má rækta og kaupa allt að 40 gr á mánuði á einstakling. Í júni hafði neðri neild þingsins samþykkt lögin og nú á forseti landsins, Jose Mujica eftir að undirrita þau. Markmið laganna er að stöðva ólögleg viðskipti og glæpastarfsemi sem tengist efninu. Einnig er vonast eftir bættri lýðheilsu. Fram að þessu hefur verið leyfilegt að eiga lítið magn af cannabis til einkaneyslu. Grimmileg átök eiga sér stað í fíkniefnaheiminum. Uppgjör glæpaflokka hafa kostað mörg mannslíf. Forsetinn vonast til að þetta muni breytast með nýjum lögum. Í fíkniefnaheiminum er líf einstaklinga nákvæmlega einskis virði en samheldni og tryggð við glæpaklíku skiptir öllu. Eftir gildistöku laganna mun ríkið hafa eftirlit með öllum þáttum kannabis ræktunar, framleiðslu, dreifingu, út-og innflutningi,,,,,.Einstaklingar geta sótt um leyfi til að rækta kannabis til sölu. Takmarkanir eru á magni. Sá sem stundar ræktun án leyfis getur átt von á 10 ára fangelsi. Mikil  andstaða er við þessa lagasetningu. Samkvæmt skoðanakönnunum eru 60% landsmanna andvíg henni. INCB (stofnun SÞ) er einnig andvíg lögunum. Hugsanlega er landið með þessari lagasetningu að brjóta gegn samþykktum SÞ. Það munu margir fylgjast með þróun málsins. (taz.de)

Mun Forseti Alþingis kenna forsætisráðherra mannasiði?

Forsætisráðherra veldur mörgum vonbrigðum. Ekki þarf mikinn spámann til að sjá að hópurinn mun stækka. Framganga mannsins er í raun lítilmannleg. Aðferð hans við að rökræða stjórnmál verður að teljast afar  undarleg. Eitt kemur ávallt fyrir; andstæðingarnir ljúgja, fara með rangt mál eða gefa sér rangar forsendur. Ekkert er til sem heitir önnur lífsssýn eða önnur forangsröðun. Nei, það eru þeir sem vita um hvað málið snýst og svo hinir sem af slæmum hug snúa út úr og ljúga. Mjög lýðræðisleg hugsun eða hitt þó heldur! Nú hefur þjóðin orðið vitni að ótrúlegum hringlandahætti í vinnubrögðum varðandi áætlanir ríkisstjórnarflokkana um niðurskurð á barnabótum og þróunaraðstoð. Formaður fjárlaganefndar segir eitt, fjármálaráðherra það sama og þingmaður stjórnarandstöðu spyr um þessi atriði á Alþiingi.Bregður nú svo við að forsætisráðherrann sem situr flissandi í sæti sínur stígur í ræðustól og segir forsendur þingmannsins rangar. Sem sagt: orð samstarfsmanna forsætisráðherra eru röng. Stefnan fyrir hádegi var sem sagt ekki sú sama og stefnan eftir hádegi. Nú mætti ætla að einhverjum í fjölmennum þingflokki Framsóknar þætti nóg um þessa furðulegu framkomu( en hún á sér nokkra sögu nú þegar) en svo virðist ekki vera. Þingflokkurinn er þögull sem gröfin og er það reyndar í fleri málum en þessum. Hvað varð um Eygló Harðardóttur, samvisku flokksins? Hvað varð um Höskuld sem hefur verið formaður Framsóknar styst allra? Hvað varð um samvinnumenn í flokknum? Hvað varð um Evrópusinna í flokknum? Freistingar valdsins eru margar.

Fasteignabóla í Svíþjóð?

Verð á íbúðum í Svíþjóð hækkaði um 14% á tólf mánaða tímabíli (okt.2012-okt.2013) og hafði verðið þá meir en þrefaldast síðan árið 2000. Kaup og sala á íbúðum hefur verið sérstaklega mikil í vinsælustu hverfum Stockholms borgar eins og Soedermalm og Vasastan. En þróunin hefur verið svipuð í Gautaborg, Malmö og öðrum borgum. Að mati margra sérfræðinga er verðið 25% hærra en eðlilegt má teljast. Skuldir heimila hafa vaxið og eru nú 173% af ráðstöfunartekjum. Þetta hlutfall hefur verið milli 90% og 100% um langt árabil. Nú er svo komið að mörg sænsk heimili eru mjög viðkvæm fyrir lækkun á verði húsnæðis. Þessi bóla mun örugglega springa eins og gerðist 1992. Fjórir stærstu bankar Svíþjóðar hafa samanlagt fjármagn sem samsvarar fjórfaldri landsframleiðslu Svíþjóðar. Sænskir bankar eru almennt taldir mjög traustir en ef til vandræða kemur mun það strax hafa áhrif út fyrir landamærin. Viðskipti bankanna eru ekki bundin við Svíþjóð. Fram til ársins 2000 hafði fasteignaverð í Svíþjóð verið nánast stöðugt í 50 ár. Síðan þá hefur verðið breyst mikið en ekki eru allir sammála um að um bólu sé að ræða. Verðið gæti hafa hækkað vegna þess að framboð á húsnæði lætur á sér standa. Nýbygginngar eru ekki nema helmingur þess sem var á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. íbúar landsins eru nú 9.5 milljónir. Mikill fjöldi innflutjenda hefur komið til landsins. Árið 2012 var fjölgunin 67000 og spáin er að hún verði 80000 á ári næstu fimm ár. Vextir eru mjög lágir og ráðstöfunartekjur hækkuðu um 58% á síðustu 10 árum. En kannski eru hinir ráðdeildarsömu Svíar að leika hættulegan leik. Vextir kynnu að hækka og fasteignaverð að lækka. Kristnir mótmælendur vilja í anda Luthers borga sínar skuldir.....

Frosti Sigurjónsson bannar allar ryksugur...

Nýlega bloggaði þingmaður Framsóknar Frosti Sigurjónsson um væntanlegt bann ESB á kraftmiklum ryksugum. Hér  skjátlast fyrrum GEO. Ætlunin er að flokka ryksugur í umhverfisvænar-ekki umhverfisvænar og fer það eftir m.a. rafmagnsnotkun eða orkunotkun. Ryksugur fá merkimiða og neytendur geta þá séð um hvað grip er að ræða. Ekkert er bannað. Neytandinn getur keypt sér þá ryksugu sem hann vill.( Die Welt. 12.9. 2013) Guði sé lof! Ryksugur sem fá merki A eru góðar. Þær eru með lága watt tölu. G fá þær sem eru með háa watt tölu. En nú varð reglugerðarsmiðunum á í messunni svipað og Frosta með bannið. Þær sem nota lítið rafmagn ryksuga illa þannig að meðal- húsfaðir þarf að ryksuga fjórum sinnum til að ná sama árangri og hefði hann notað ryksugu merkta G. Þá er orðin spurning með sparnaðinn. En hvað skyldi vera næst á dagskrá hjá umhverfisreglugerðarsmiðunum. Jú; klósett sem sparar vatn! Samkvæmt reglugerð má ekki nota meir en 3.5 lítra af vatni í hvert sinn sem sturtað er. En lausnin blasir við: hver og einn neyðist til að sturta oftar.....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 745

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband