Færsluflokkur: Bloggar

Mjólkurkvóti, greiðslumark og beingreiðsla.

Ráðherra landbúnaðarmála telur tímabært að endurskoða kvótakerfi í mjólkurframleiðslu enda sé vaxandi eftirspurn ekki fullnægt í núverandi kerfi. Mjólkurkvóti er heildargreiðslumark. það er ákveðið af ráðherranum fyrir hvert verðlagsár. Það miðast við sölu á innanlandsmarkaði. Greiðslumark er sá hluti sem veitir hverjum mjólkurframleiðenda rétt til greiðslu úr ríkissjóði. Greiðslumark er bundið við lögbýli og breytist í hlutfalli við heildargreiðslumark. Beingreiðsla er greidd til framleiðenda sem á greiðslumark. Kúabændur fá einnig annars konar fjárhagslegan stuðning frá ríkinu. Bóndinn fær afurðarstöðvarverð frá mjólkurstöð. Mjólkurframleiðendum hefur fækkað jafnt og þétt frá 1980. 1980 voru þeir uþb 2300 en eru nú rúmlega 600. Á sama tíma hefur mjólkurframleiðslan vaxið jafnt og þétt. Heildarinnviktun mjólkur árið 2012 voru 125 milljónir lítra(aðildarfélög SAM). Í fyrra voru mjólkurkýr í landinu 24761.  

Íslenska lífeyriskerfið; hrein eign 2600 milljarðar árið 2013.

Stoðir kerfisins eru þrjár.Þessar stoðir eru eins og kunnugt er almannatrygingar, sameignarlífeyrissjóðir og séreignasparnaður. Í byrjun árs 2011 voru starfandi sjóðir 33. Hrein eign sjóðanna hefur vaxið hratt frá 1980. Margt hefur áhrif á þessa stærð en hagstæð aldurssamsetning hefur mikil áhrif. Inngreiðslur eru mun hærri en útgreiðslur. Verðtrygging hefur jákvæð áhrif á eignamyndun. Raunaukning eigna hefur verið jákvæð en 2008 var hún neikvæð um 20%. Hlutabréf og skuldabréf bankanna misstu nær allt verðgildi. Í alþjóðlegum samanburði er íslenska lífeyrissjóðakerfi stórt ef miðað er við hlutfall af landsframleiðslu. Hrein raunávöxtun var 0.4% á árunum 2005 til 2010. Í október síðastliðnum var hrein eign til greiðslu 2622286. Hrein eign til greiðslu í séreigndeild var 259270. 

 


Er kvenhatur kerfisbundið? Rannsókn á skrifum A. B. Breiviks.

Jorgen Lorentzen er bókmenntafræðingur og félagsvísindamaður í Noregi. Hann hefur rannsakað rit Breiviks 2083 og telur að þar sé andfemínismi settur í kerfi. Í skrifum Breivik kemur greinilega fram að hann vill taka aftur upp karlræði vegna þess að konur hafi fengið of mikil völd í nútímanum. Í athugasemdakerfum netmiðlanna verða hótanir og niðurlægjandi ummæli í garð kvenna sífellt meir áberandi. Menn virðast  vera óhræddir við að viðra skoðanir sínar. Kvenhatur er sem sagt til í norsku samfélagi en í netmiðlum kemur það aðallega fram sem skítkast. Breivik er þeirrar skoðunar að sterk staða kvenna hafi veikt stöðu karla og þá um leið hæfni þeirra til að verja fjölskylduna og þjóðina. Lorentzen telur að þessi hugsunarháttur sé einkennandi fyrir þá menn sem tjá sig á hatursfullan hátt um konur. Breivik skrifar að vald kvenna hafi aukist mikið í vestrænum löndum. Þær hafi fengið meiri pólitísk vald, meiriáhrif innan fjölskyldu og þær hafi kynlægt vald þar sem karlar hafi meiri kynþarfir en konur. Í netmiðlum kemur greinilega fram að karlar telja að þeir hafi tapað einhverju. Félagsleg staða þeirra hafi veikst. Nú sýna rannsóknir hins vegar að þjóðfélagslegar breytingar hafa einnig leitt til betri stöðu fyrir karla. En alltaf verða einhverjir útundan. Hægriöfgamenn eru á valdi nostalgíu, eftirsjá eftir liðnum tíma. En sá tími kemur aldrei aftur. Kvenhatur getur birst sem ofbeldi, nauðganir og dráp. En Breivik er algjörlega sér á báti. (Klassekampen).

Læsi barna, foreldrar og skólinn.

PISA könnunin vefst fyrir mörgum og sitt sýnist hverjum. Í kastljósi kvöldsins var rætt um niðurstöður nýrrar könnunar og var einkum fjallað um læsi og þá niðurstöðu þessarar könnunar að þriðjungur drengja sé illa læs eftir 10 ár á skólabekk. Af undarlegum og óskiljanlegum ástæðum var lítið sem ekkert fjallað um fjölskylduna. Þó kom fram að drengir í 10.bekk væru mikið einir heima og foreldrar vissi ekki hvað vinirnir hétu. Ekkert var minnst á tæknivæðingu heimilisins og þann stafræna tölvu-og tvöluleikjaheim sem drengir lifa í. Ekkert var minnst á það að það eru fyrst og fremst drengir sem eiga við vandamál að stríða í grunnskólum landsins. Það er sama hvaða vandamál er tekið. Alltaf er hlutfallið drengir 75% og stúlkur 25%. Til eru fjölskyldur þar sem foreldrar og unglingar sitja saman klukkutíma annan hvern dag og reikna saman. Hversu margar fjölskyldur skyldu sitja saman klukkutíma annan hvern dag og lesa bækur? Það er kunnara en frá þurfi að segja að foreldrar eru helsta fyrirmynd barna. Í þróun læsis geta foreldrar og eiga að leika stórt hlutverk. Einn af hornsteinum lestrarnáms er að foreldrar lesi fyrir börn sín sem flestir gera reyndar. Mörg börn eru læs þegar þau hefja nám í grunnskóla. Á fyrstu árum grunnskóla er lykilatriði í námi barnsins að gott samstarf og traust sé á milli fjölskyldu þess og skólans. Það að vera læs er grunnþekking og um leið mannréttindi. Ólæsi meðal fullorðinna er líklega 4% og sá hópur býr við mikla erfiðleika á vinnumarkaði.

Á að banna starfsemi banka í stað þess að sekta þá?

Bankar hafa orðið að borga himinháar sektir vegna þess að þeir(starfsmenn) hafa haft óeðlileg áhrif á vaxtamyndun. það virðist hörð refsing en kannski nær hún ekki tilgangi sínum og eðlilegra væri að svipta banka starfsleyfi og leysa þá upp. Framkvæmdastjórn ESB hefur nýlega sektað nokkra alþjóðlega banka um 1.7 milljarð evra vegna samráðs um vaxtamyndun. Deutsche Bank verður að borga 725 milljónir evra. Eitt er það þegar stjórnendur fyrirtækja hittast í reykfylltum bakherbergjum og ákveða verð á bensíni og olíu. það er samsteypa eða kartell og til eru lög sem banna slíkt. Fáir bankar taka sig til og ákveða lobor eða euribor vexti og það hefur áhrif á fjölmarga aðra banka og fjármálastofnanir. Fáu bankarnir geta án allrar áhættu sundað sín viðskipti og spákaupmennsku. Þeir stjórna mikilvægustu breytum. Efnahagsglæpir eiga sér langa sögu en bankarnir hafa numið nýjar lendur hvað varðar umfang og upphæðir. það er pirrandi að fá sekt ef bílnum er lagt á rangan stað en það er ekkert meira. Líklega hafa stjórnendur banka í Evrópu ekki skilið enn hversu innilega þeir eru hataðir. Af sjálfsdáðum munu þeir ekki taka til í eigin ranni. Eitthvað verður að koma til sem hvetur þá til þess eða neyðir. (Spiegel).

Hvað geta skólar í Asiu kennt okkur?

Skólar í Shanghai voru bestir samkvæmt Pisa 2009 og eru það einnig núna. Hér er lögð áhersla á mikla vinnu ferkar en hæfileika en frumkvæði og sköpunarkraftur kennara er einnig nýttur. Nemendur í Shanghai er góðir í því að yfirfæra þekkingu frá einu sviði yfir á annað. Þeir geta nýtt það sem þeir kunna við breytt verkefni og ólíkar aðstæður. Í Shanghai getur 30% nemenda nýtt sér stærðfræðikunnáttu á skapandi hátt. Í USA er hlutfallið 2%. Mannval og mannaráðnigar skipta miklu í skólum í Shanghai. Mjög mikill áróður er rekinn fyrir gildi menntunar og hlutverki hennar í framtíðarþróun Kína. Í Japan eru nemendur reiðubúnir að leggja mjög hart að sér í náminu. Það er staðföst sannfæring að árangur sé ávöxtur mikillar ástundunnar en ekki vegna meðfæddra gáfna. Kröfur skólans, foreldra og kennara eru í samræmi við þetta. Mikil áhersla er lögð á símenntun og endurmenntun kennara. En skólastarfið í Shanghai hefur á sér ýmsar hliðar. 65% nemenda segir að þeim líði vel í skólanum eða að þeim finnst þeir tilheyra skólanum. 77% segja að öðrum nemendum líki vel við þá. 75% segja að skólinn hafi kennt þeim eitthvað sem muni nýtast þeim í framtíðinni.(cnn.com).

PISA könnunin í Svíþjóð.

PISA könnunin er gífurlegt áfall fyrir Svía. Þetta vekur skelfingu segar sérfræðingar í menntamálum. Sumir ætla að ánægja kennara með starf sitt hafi farið minnkandi. Vinnuánægja og tryggð við starfið minnkar. Launin er lág og virðing sem fylgir starfinu er ekki mikil. Kennarar eru blórabögglar fyrir margt sem aflaga fer. Á 10. áratug síðustu aldar voru gerðar margvíslegar breytingar á sænsku skólakerfi. Ríkið fjármagnaði skóla sveitarfélaganna en einnig svonefnda frjálsa skóla. Sveitastjórnir báru nú ábyrgð á skólum og skólastjórnendur og kennarar hafa veruleg áhrif á val kennsluefnis. Áhrif foreldra á skólana voru aukin. Foreldrar réðu því nú í raun í hvaða skóla barn þeirra fór. Þetta átti að auka frelsi og samkeppni. Þessi markmið hafa ekki náðst. það hefur leitt til þess að börn menntafólks eru í ákveðum skólum og börn innflytjenda í ákveðnum skólum en þetta er eftir sem áður ekki áberandi tilhneiging. Hins vegar virðast nemendur með ákveðinn námsstíl veljast í ákveðna skóla. Metnaðarfullir nemendur sem lesa mikið sækja í einstaka ákveðna skóla. En hver er þessi hópur sem gjarnan sækir langan veg í skólann sinn? Foreldrarnir eru bæði með háskólamenntun, þau eru innfæddir svíar og þau fá enga félagslega aðstoð. Aðgreiningin á sér stað á húsnæðismarkaði. Þeir sem hafa miðlungstekjur eða minna búa í blokkum. Hinir í sérbýli. Skýringar eru fleiri; það á að borga kennurum hærri laun. Innflytjendur eru orðnir alltof margir. Í 7 efstu sætum PISA 2013 eru unglingar frá Asíu. Það kemur merkilega vel heim og saman við þróun í alþjóðaviðskiptum.

Er Francis páfi marxisti?

Hann hefur gagnrýnt einkaeign,lýst hvernig peningar eru skurðgoð samtímans, hafnað öfgafullri neysluhyggju og gagnrýnt hvernig markaðskerfið virðir hina fátæku einskis. En allt þetta þarf ekki að gera hann að marxista. Umhyggja fyrir fátækum hefur ávallt verið kjarni kaþólskrar trúar. Þetta hefur farið fyrir brjóstið á ýmsum hægri sinnum sem telja að páfinn sé kominn langt út fyrir sitt og farinn að tala um sósíaisma og kapitalisma. Hann sé guðfræðingur hafi ekki vit á slíku. Páfinn kemur frá Argentínu. Hann þekkir það af eigi raun hvað gerist þegar ríkið lýsir yfir greiðsluþroti og fjármálakerfið bráðnar niður. Hann hvatti presta sína til að einbeita sér að fátækrahverfunum. Þeir áttu að sinna þeim sem markaðurinn hafði skilið eftir og virti ekki viðlits. En aðrir páfar hafa haft svipaðar áherslur og Francis. Jóhannes Páll 2 gagnrýndi nýfrjálshyggjuna og það gerði Benedikt 16 einnig. En það má vera að páfinn hafi snert viðkvæman streng. Hann hafnar brauðmylsnukenningunni (að auðurinn dreifist niður á við öllum til góða). Þetta telur páfinn að standist ekki próf veruleikans. Þetta sé gróf og barnaleg skoðun. Blekking og villandi hugmyndafræði. En allt þetta nægir ekki til að gera páfann að marxista. Kirkjan er fyrir hina fátæku er leiðarljós hans. 

Geðsjúkdómar og afbrot.

Frá árinu 1983 til 2008 lögðust 7670 karlmenn inná geðdeild hér á landi. 815 höfðu afplánað dóm í fangelsi og 749 voru með fíknisjúkdóm. Erlendar ransóknir hafa sýnt að um 40% fanga glímir við geðraskanir og  10-15% glímir við alvarlegar geðraskanir. Í 15 grein almennra hegningarlaga segir að geðsjúkum mönnum skuli eigi refsað enda hafi þeir sjúkdómsins vegna verið ófærir um að stjórna gerðum sínum. Sakhæfi er lögfræðilegt hugtak og dómari úrskurðar um sakhæfi brotamanns. Sakhæfir brotamenn eru dæmdir til fangelsisvistar en ekki ósakhæfir. Ósakhæfir geðsjúkir íslenskir brotamenn hafa ýmist verið í fangeslum hér á landi eða sjúkrahúsum erlemdis eða á réttargeðdeild hér á landi. Á réttargeðdeild fær sjúklingur meðferð og dvelur að lágmarki tvö ár. Í fangelsum eiga fangar rétt á heilbrigðisþjónustu eins og aðrir. Samkvæmt mati opinberra aðila er geðheilbrigðisþjónustu ábótavant í fangelsum hér á landi. Meðal annarra hefur Evrópunefndin CPT bent á þetta en hún hefur fjórum sinnum gert úttekt á fangelsum landsins. Mjög erfiðlega hefur gengið að fá langtímainnlög á geðdeildum fyrir fanga. Það er togstreita milli geðsjúkrahúsa og deilda og Fangelsismálastofnunar. Það er ljóst að Fangelsismálastofnun hefur hvorki mannafla né úrræði til að sinna geðsjúkum föngum. Í nokkrum tilvikum hafa alvarlega geðsjúkir fangar verið vistaðir í einangrun í fangelsi. 

Lesskilningur, stærðfræði og náttúrufræði. PISA 2012.

Frammistaða íslenskra nemenda versnar verulega frá 2009. Munur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis vex. Piltum fer mikið aftur í lesskilningi og stærðfræðilæsi. Mikill munur er á innfæddum og inflytjendum. Lítill munur er milli skóla. Viðhorf nemenda eru jákvæðari. --Þetta eru niðurstöður í örstuttu máli. Líklega kemur niðurstaðan ekki á óvart en hún veldur miklum vonbrigðum. Jafnfram er hún alvarleg áminning. PISA er alþjóðleg rannsókn. Í fyrra tóku 65 lönd þátt í rannsókninni. Í öllum löndum Evrópu er mikið um hana fjallað og mikið mark á henni tekið. Ísland er rétt fyrir neðan OECD meðaltal í læsi  á stærðfræði. Ísland er langt fyrir neðan þetta meðaltal í læsi í náttúrufræði. Á 10 árum virðist læsi hafa farið aftur sem nemur hálfu skólaári. Staða nemenda á Íslandi er ekki einstök. Staða nemenda í Svíþjóð virðist t.d. nokkru verri. Unglingum virðist líða vel í skóla sem er gott en framtíð í skóla og á vinnumarkaði reynist þeim erfið sem er ekki vel læs. Munur á drengjum og stúlkum hvað læsi varðar er mikið áhyggjuefni svo og munur á höfuðborgarsvæði og landsbyggð. Vel menntað vinnuafl er mikilvægasta auðlind Íslands. Dagar  orðagjálfurs á tyllidögum eru liðnir. Nú verða stjórnvöld og þjóðin að láta verkin tala. Það merkilega er að þetta ástand skrifast aðallega á reikning íslenskra fjölskyldna en auðvitað ekki eingöngu. Íslensk heimili eru mjög tæknivædd, tölvur, símar, leikjatölvur....listinn er langur. Netheimur og heimur tölvuleikja er annað heimili íslenskra unglinga. Tímanum eiga foreldrar og geta foreldrar stjórnað. Fjölmiðlar hvetja ekki til lesturs og það gera kvikmyndir og framhaldsþættir heldur ekki. Mynd-og hljóðefni hefur náð yfirtökum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband