Færsluflokkur: Bloggar
30.11.2013 | 14:54
Ný lög um vændi í Frakklandi.
Á þinginu í París er rætt um nýtt frumvarp. Samkvæmt því verður refsivert að kaupa vændisþjónustu. Refsing við fyrsta brot verður 1500 evrur eða nálægt 250000 kr. Við endurtekið brot tvöfaldast upphæðin. Vændiskonurnar eru fyrst og síðast fórnarlömb og þær verður að vernda segja stuðningsmenn frumvarpsins. Um þetta mál er deilt af hörku í frönsku samfélagi. Stofnuð hafa verið samtökin ; 343 hórkarlar og hefur verið sett fram ávarp undir yfirskriftinni; látið hórurnar okkar í friði. Rithöfundurinn F Beigbeder, blaðamaðurinn E Semmour og útgefandinn C Durand fara fyrir þessum samtökum. Samkvæmt rannsóknum hefur þriðjungur franskra karlmanna farið til vændiskonu. Strass eru samtök vændiskvenna í Frakklandi. Þau áætla að fjöldi vændiskvenna í landinu séu 400000. 80% kvennanna koma frá AusturEvrópu, Afriku og Asíu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir aðstoð við konur sem vilja yfirgefa kynlífsiðnaðinn. Í Frakklandi er litið til Svíþjóðar sem fyrirmyndar. Árið 1993 var þar sett í lög bann við kaupum á kynlífsþjónustu.
30.11.2013 | 10:19
Af venjulegum og óvenjulegum heimsmetum.
SDG lýsti því yfir á Alþingi að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn hyggðust setja heimsmet í niðurfærslu skulda heimila. Sem sagt verðtryggðra skulda að teknu tilliti til aðgerða sem þegar hafa farið fram. Síðan þetta var hafa nefndir starfað og ólíkt annarri nefnd hafa ekki komið neinar yfirlýsingar um framvindu málsins eða svo mikilvægt atriði sem fjármögnun aðgerðirannar. Þetta mun að sjálfsögðu gera blaðamannafundinn ennþá meira spennandi. Einn hafa menn viljað forðast að vilja hafa áhrif á hinn svonefnda og mjög viðkvæma markað. Eitt elsta heimsmet karla í frjálsum íþróttum er kringlukast en það var sett árið 1986. Það hefur þvi staðið í allmarga daga. Ekki er vitað til þess að fyrirfram hafi verið tilkynnt um heimsmetið. það hefur hins vegar verið staðfest og viðurkennt af öllum. Ekki er ljóst hver á að staðfesta heimsmet SDG. Að öðru jöfnu gæti Seðlabankinn gert það en það verður varla þar sem hann er nú orðinn pólitísk samtök. AGS gæti komið til greina en það er erlend skammstöfun. Úr vöndu er að ráða. Að lokum tvær sviðsmyndir. SDB (og BB) setja glæsilegt heimsmet í dag. Fagnaðarlæti brjótast út. Fyrst á blaðamannafundi en síðan meðal allrar þjóðarinnar. Stjórnarsamstarfið er tryggt næsta áratuginn. Síðari sviðsmynd. Hugmyndir falla í grýttan jarðveg. Menn skilja ekki skýringar SDG um að hleypa lofti úr froðu. Framsókn hrynur endanlega. Boðað verður fljótlega til kosninga og stjórnarskipti verða. Fleiri sviðsmyndir eru til og líklega líklegri en þessar tvær.
29.11.2013 | 23:15
Að framleiða verðmæti eða stunda afleiðuviðskipti?
Thorstein Veblen var bandarískur félagsfræðingur af norskum ættum. Árið 1899 kom út bók hans The Theory of the Leisure Class. Veblen var mjög gagnrýninn á bandarískt samfélag sinnar samtíðar. Þá eins og nú trúðu margir að markaðurinn gæti leyst öll vandamál. Núna eru viðskipti stunduð með verðbréf og pappíra. Menn spá í gengi gjaldmiðla, skipta úr einum gjaldmiðli í annan. Menn gera samninga þar sem hagnaður eða tap ráðast af verðbreytingum fjölmargra vara. Fasteignabólur verða til og eru búnar til í kapphlaupi þar sem allir vonast eftir miklum gróða. Eitt sinn ætluðu margir að græða mikið og fljótt á hlutabréfum í DeCode....Sumir hagnast reyndar á því að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og nýjungum. Fjármálakerfið getur hækkað verð á einstökum vörum langt umfram eðlilegt verð. Bakarinn selur brauð og fær sín laun og hugsanlega hagnað. Annar aðili veðjar á verðbreytingar á hveiti og annarar vöru. Og hagnast eða tapar. Sumir hagnast mikið þegar landsframleiðslan dregst saman. Stundum gerist þetta með markaðsmisnotkun. Enron og rafmagnsverð í Kaliforníu er þekkt dæmi. Þegar fjármálakerfið verður mjög valdamikið er von á kreppum. Það sýnir sagan. Í bók Veblen er sett framkenning um stéttir og neyslu. Hann telur að arfleifð lénskerfisins lifi áfram í markaðskerfinu. Lénsherrar nútímans eru þá fjármálafurstarnir.
29.11.2013 | 14:49
Fasismi á Íslandi?
Í DV í dag er viðtal við Davíð Þór Jónsson, guðfræðing og listamann. Honum líst illa á þróun stjórnmálanna og sér dökk ský á lofti. Hann telur að listamenn tjái sig ekki opinberlega af ótta við að vera settir út í kuldann og ritskoði sjálfa sig. Hann telur að öfgasinnaðir þjóðernissinnar noti hatursáróður og lýðskrum. Reynt sé að beina reiði almennings að lista- og menntafólki. Davíð þór verður tíðrætt um lekann úr innanríkisráðuneytinu sem allir ættu að geta verið sammála um að er grafalvarlegt mál. Davíð Þór segir að í landinu ríki andrúmsloft pólitískra hreinsana. Hann telur að stöðuveitingavaldinu sé beitt gegn honum vegna pólitískra afskipta og skoðana. Nú má það vera að Davíð Þór sé of svartsýnn og meti ástandið ekki rétt. Hvað sem því líður er rétt að spyrja að því hvernig myndi fasismi á Íslandi líta út? Stutta svarið er íslensk útgáfa af Teboðshreyfingunni. Einkenni fasisma hér yrði örugglega mjög öfgakennd þjóðernishyggja og mikil andúð gagnvart framandi menningarhópum. Andstaða við fjölmenningarsamfélagið er einkenni hægri-öfgahópa í Evrópu. Annað einkenni yrði að ríkivaldi yrði beitt mjög markvisst til að útiloka óæskilegar skoðanir. það væri gert t.d. með því að beita stöðuveitingarvaldinu pólitískt. Þriðja atriðið er að samningsréttur launafólks yrði afnuminn í reynd. Önnur spurning á jafn mikinn rétt á sér og hin; af hverju verður Ísland ekki fasískt?
29.11.2013 | 10:09
Borgarastríðið í Sýrlandi: ein milljón barna á flótta.
Aðstæður flóttamanna eru skelfilegar sérstaklega barnanna. Þau eru rænd æsku sinni. Þau eru neydd til að vinna eða þau eru gefin í hjónaband. Tölurnar eru skelfilega háar. Í Líbanon eru 385 þúsund börn, í Tyrklandi 294 þúsund og í Jórdaníu 291 þúsund. Helmingur allra sýrlenskra barna er á flótta erlendis eða innanlands. Í Rúanda árið 1994 skapaðist svipað ástand. Mörg börn hafa orðið fyrir sálrænu áfalli. Þau geta ekki sofið, þau stama og þau pissa í rúmið. Reynsla þeirra af stríðinu er skelfileg og það hefur áhrif á sálarlíf og heilsu. Margar fjölskyldur eru háðar tekjum sem börnin afla með vinnu sinni. Sjö ára börn verða að vinna ef fjölskyldufaðirinn varð eftir í Sýrlandi en konan fór með börnin. Samir er 13 ára gamall. Hann vinnur 6 daga vikuunnar 12 tíma á dag í tehúsi í Irbid í Jórdaníu. Fyrir 12 tíma vinnu fær hann tæplega þrjár evrur eða rúmar 300 íslenskar krónur. Hann á 15 ára gamla systur en hún var seld til fimmtugs sýrlendings. Lífið í flóttamannabúðunum er sérstaklega erfitt fyrir stúlkur. Óttin við ofbeldisverk, s.s. nauðganir er mikill. Foreldrar reyna að halda stúlkum heima við eins mikið og hægt er. Lítill hluti barnanna í flóttamannabúðunum hefur kost á þvi að ganga í skóla. Skólaganga verður ekki tryggð nema með alþjóðlegri hjálparaðstoð. Allt veltur nú á að hægt verði að binda endi á borgarastríðið. (Spiegel).
28.11.2013 | 19:24
Ayn Rand, Francis páfi og heimspeki græðginnar.
Ayn Rand er vinsæl hjá hægrisinnuðu menntamönnum í USA og Evrópu. Hún trúði ekki á Guð og örugglega ekki á lýðræði. Hinir auðugu og valdamiklu eiga að stjórna vegna þess að þeir vita hvernig á að stjórna. Hinir ríku eru hetjur en almenningur er hættulegur skríll. Ayn Rand notaði ekki þessi orð en bak við skrúðmælgi og orðaaflaum er þetta kjarninn. Páfinn í Róm tekur annan pól í hæðina. Hann líkir kapitalisma við ógnarstjórn. Hann hafnar hagkerfi útilokunar og misréttis. Mikill fjöldi fólks í heiminum lifir í neyð.Peningarnir eru skurðgoð sem mennirnir dýrka í taumlausri neyslu. En hvað vill Francis páfi gera? Hann vill að hinir ríku verði sanngjarnir og réttlátir. Guð og Páfinn elska alla, jafnt ríka sem fátæka. Peningarnir eiga að þjóna manninum en ekki stjórna honum. Kapítalistarnir eiga sem sagt að hugsa meira á siðrænum nótum. Ábyrgur kapitalismi; er það möguleiki? Hverju myndi Ayn Rand svara? græðgi er góð, mismunun er nausyn og vald er réttur!
28.11.2013 | 18:08
Stefna Ríkisútvarpsins 2013-2016?
Í nóvember 2012 var gefið út rit um stefnu ruv. Þar er tekið fram að 300 starfsmenn hafi átt þess kost að taka þátt í stefnumótun og hafi rúmlega 200 tekið þátt í vinnunni. Og hvað á nú stofnunin að gera? hún á að flytja fréttir sem eru óháðar og traustar en hún á einnig að vera vettvangur víðtækrar umræðu um innlend og erlend málefni. Hún á að vera mikilvægur þátttakandi í íslensku menningarlífi og um leið vera leiðandi í gæðum og efnistökum. Hún á einnig að vera gluggi að erlendum menningarstraumum. Stofnunin á einnig að veita fólki afþreyingu og gera það á metnaðarfullan hátt. Stofnunin á að ná til allrar þjóðarinnar með þeirri tækni sem hentar best hverju sinni. Stofnunin byggir á fagmennsku og traustum starfsháttum. Þetta er stefnan í hnotskurn. Stofnunin vill (eða vildi) halda stöðu sinni sem öflugasti og áreiðanlegasti fjölmiðill landsins. Varðandi fréttir hefur stofnunin fimm markmið; að fólk geti treyst fréttunum, að fréttir séu vandaðar, nákvæmar,innihaldsríkar og upplýsandi,að fréttirnar séu fyrsti valkostur, að fréttir örvi gagnrýna þjóðfélagsumræðu og að gamlar fréttir séu aðgengilegar. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að fréttaflutningur rúv af Evrópumálefnum hefur verið umdeildur. Um tíma (eða enn) var starfandi sérstakur eftirlitshópur með hlutleysi rúv. Meðal virkra þátttakenda þar voru(eru) amk 2 þingmenn. Þessi hópur telur fréttaflutninginn vera bjagaðan og gefi ekki rétta mynd af stöðu mála. Nú getur hver haft sína skoðun á því en þetta er vísbending um það að einhvers konar formlegt mat verði að leggja á hlutlægni fréttaflutnings.
28.11.2013 | 16:52
Ríkisútvarpið; nokkrar tölulegar staðreyndir.
Árið 2011 sendi Ríkisútvarpið út í samtals 17520 stundir sem skiptust jafnt á milli rásar 1 og rásar 2. Ríkisútvarpið-sjónvarp sendi út í 5055 stundir. Á rás 1 var tónlist í 4160 stundir. Í 2060 stundir var útvarpað um menningu, listir og vísindi. Um samfélagsleg málefni var fjallað í 962 stundir en fréttir og veður fengu 902 stundir. Fréttir og veður fengu hins vegar 1920 stundir á rás 2. Auglýsingar tóku sinn tíma eða 254 á rás 1 og og 407 stundir á rás 2. ( Landshagir 2013).
28.11.2013 | 13:55
Svíþjóð: grimm átök öfgahópa um málefni innflytjenda.
Hægri-og vinstriöfgamenn í Svíþjóð berjast á vefsíðum og götum borganna af heift sem varla þekkist á öðrum Norðurlöndum. Á þinginu Rigsdagen er SD-Svíþjóðardemókrötum hafnað af öðrum flokkum en annars staðar á stað hatröm barátta. Farðu til andskotans, niggari, öskraði félagi í SM(sænska mótspyrnuhreyfingin) fyrir utan húsnæði hælisleitenda í Hunnebostrand. Í Vestur Svíþjóð hafa stjórnmálamenn í SD fengið hótanir og eigur þeirra hafa verið skemmdar. Í Stokkhólmi og nágrenni hefur verið stríð á milli öfgahópa á síðasta ári. Í þessum mánuði tók lögreglan unga vinstrisinna í gæsluvarðhald og yfirheyrslu vegna gruns um skemmdarverk, líkamsmeiðingar og vegna áætlana um að fremja morð. Flokkur Svía(Svenskarnas Parti) mun efna til mótmæla í Lidköping í næstu viku. Þeir ætla að mótmæla fjandsamlegum viðhorfum gagnvart sænskri menningu. Þeir vilja með þessu heiðra fórnarlömb fjölmenningarsamfélagsins sem þeir telja að innflytjendur hafi orðið að bana. Á síðustu 10 árum hafa verið framin 9000 lögbrot og lögreglan telur að vinstri-og hægrimenn eigi sinn hvort helminginn. Hreyfing sem kennir sig við -Hvítt vald- ræðst bæði á innflytjendur og samkynhneigt fólk. Á netinu fer fram grimmilegt stríð i athugasemdakerfum, með persónulegur árásum og með því að gera árásir á netsíður. 12% sænskra kjósenda eru þeirrar skoðunar að SD hafi bestu stefnuna í innflytjendamálum. 21% vilja að Svíþjóð taki á móti færri flóttamönnum. 9% segjast munu kjósa SD enda eru innflytjendamálin ekki einu málin sem brenna á kjósendum.
28.11.2013 | 11:21
Er þörf á ríkisútvarpi eða öðrum ríkisfjölmiðlum?
Helsta hlutvers opinberra fjölmiðla er þjónusta við almenning og það að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Breska módelið-BBC- er almennt talið hafa mjög breiða skírskotun. Helstu einkenni þess eru; úsendingar nást allstaðar, efnið höfðar til mjög breiðs og fjölbreytts hóps, minnihlutahópum er veitt sérstök athygli, lögð er rækt við þjóðmenningu og þjóðarvitund, haldið er fjarlægð við einkahagsmuni en byggt á almennum hagsmunum, fjármögnun fer í gegnum sérstaka sjóði eða ríkissjóð, áhersla er á gæði efnis en ekki magn og að lokum áhersla á sjálfstæði dagskrárgerðarmanna. Opinberar útvarps-og sjónvarpsstöðvar eru til í nánast öllum ríkjum heims. Ríkisútvarpið á Indlandi heitir Prasar Bharati, í Danmörku DR, á Írlandi RTE, í Noregi NRK, í Bretlandi BBC, Channel 4 og S4C, og CBC í Kanada svo örfá dæmi séu nefnd. --Umræðan um Ríkisútvarpið(ruv) tekur á sig undarlegar myndir. Sjálfskipaðir sérfræðingar hafa lausnir á hverjum fingri; seljum útvarpshúsið og leigum út rás 2 ,það er hægt að finna hentugt húsnæði fyrir slíka starfsemi í Skaftahlíðinni enda blómstra fjölmiðlar þar, ruv á að losa sig við allt skemmtiefni; það er betra að einkaaðilar bítist um það, ruv á að losa sig við sýningarrétt á íþróttaviðburðum( komum þeim í lokaðar stöðvar)...í hruninu misstu margir miklar eignir, atvinnu, fyrirtæki sín og því miður virðast sumir hafa misst einhvern hluta af vitsmunum líka.
Um bloggið
Hrafn Arnarson
Tenglar
Mínir tenglar
- Næsta kreppa. Marxískur hagfræðingur skrifar um efnahagsmál.
http://thenextrecession.wordpress.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar