Færsluflokkur: Bloggar

Traust til stofnana og fjölmiðla.

Traust á milli manna er grundvallaratriði í samskiptum manna og uppbyggingu samfélaga. Um það hafa verið ritaðar lærðar bækur. Það er ljóst að gagnkvæmt traust auðveldar samskipti og gerir þau einfaldari. Lítið traust kallar á mikið eftirlit og einföld samskipti verða mjög flókin. Á dögum kalda stríðsins sögðu menn : traust er gott en eftirlit er betra. Þetta var auðvitað rétt á tímum spennu, tortryggni, vígbúnaðarkapphlaups og víðtækra njósna. Traust er mikilvægt hér á landi sérstaklega á örlagatímum þegar afdrífaríkar ákvarðanir eru teknar. MMR gerir reglulega kannanir á trausti almennings til mikilvægra stofnana samfélagsins. Til Alþingis bera bera 16.4% frekar eða mjög mikið traust. 49% frekar eða mjög lítið. Þetta ætti að vera mörgum mikið umhugsunarefni. Til Ríkisútvarpsins bera 52.3% frekar eða mjög mikið traust. Þetta ætti að vera öllum þingmönnum mikið umhugsunarefni. Nú er stjórnskipan landsins þannig að Alþingi fer með frjárveitingarvaldið. Alþingi hefur vald til að leggja á skatta og gjöld. Ef fjölmiðlar eiga að vera óháðir og geta sinnt skyldum sínum við almenning verða þeir að vera óháðir einkahagsmunum sem hafa arðsemi fjármagns að leiðarljósi. Það er mikið í húfi.

Norðurlönd og umheimurinn; tölfræðilegur samanburður.

Á Norðurlöndum búa 26 milljónir manna, í ESB 486 milljónir, í Japan 128 milljónir og í USA 309 milljónir. Landsframleiðsla á mann er hæst í USA en næsthæst á Norðurlöndum. Lífslíkur eru hæstar í Japan en næsthæstar á Norðurlöndum. Atvinnuleysi er minnst í Japan en næstminnst á Norðurlöndum. En hvaðan koma innflytjendur til Norðurlandanna? 17% koma frá öðrum Norðurlöndum. 21% koma frá Asíu. 15% frá Póllandi, Lettlandi og Litháen. 23% frá öðrum löndum evrópska efnahagssvæðisins. 7% frá öðrum löndum Evrópu. Frá Afríku koma 8% og 6% frá Ameriku.  Til hvaða landa flytja Norðurlandabúar? 31% flytja til annarra Norðurlanda. 23% til annarra landa innan evrópska efnahagssvæðisins. 12% til Asíu og 10% til Ameriku. 2% til Afriku. Á sjöunda áratugnum voru það langmest Norðurlandabúar sem fluttu til Norðurlanda en nú koma flestir innflytjendur frá öðrum löndum Evrópu. Þeir sem leita hælis á Norðurlöndum hafa verið á milli 45000 og 60000 á undanförnum árum. Í fyrra fengu 12576 hæli í Svíþjóð, í Danmörku voru það 2464 og 50 hér á landi. Hagkerfi Norðurlanda eru lítil , opin og útflutningsmiðuð. (Norræn tölfræði árbók 2013).

Írland; eftir fasteignabólu standa 230000 hús auð.......

Einkenni fasteignamarkaðar á Írlandi er gífurlegt offramboð á íbúðum og fasteignum. Verktakabransinn á Írlandi fékk að leika lausum hala í nokkur ár og þetta er afraksturinn. Fjöldagjaldþrot fyrirtækja, fjöldaatvinnuleysi og tugþúsundir hafa yfirgefið landið í leit að vinnu. Hluti húsanna eru ófrágengin og heilu hverfin eru eins og draugaborgir. Í mörgum tilvikum er ekkert annað að gera en jafna húsin við jörðu. Uppsveifluárin á Írlandi voru á 10. áratug síðustu landar. Þá var Írland nefnt keltneski tígurinn. Hluti af uppsveiflunni var gífurleg þensla í byggingarbransanum. Um það bil 5000 einstaklingar eru nú heimilislausir á Írlandi. Helmingur þeirra er í Dyflinni. Ekki er til opinbert fjármagn til að tryggja þeim varanlegt húsnæði. Bólan sprakk og það mun taka meir en áratug að byggja upp á ný og bjarga því sem bjargað verður úr rústunum. (CCTV).

Stjórnarmyndun í Þýskalandi.

Hægri flokkarnir-CDU/CSU- og Jafnaðarmannaflokkurinn-SPD- hafa myndað ríkisstjórn. Stjórnarsáttmálinn er tæpar 200 blaðsíður og þar er farið yfir helstu málaflokka. Ekki er vitað hver ráðherraskipan verður. Um hana verður tilkynnt þegar og ef félagar í SPD samþykkja ríkisstjornarþáttöku. Þó er vitað að Jafnaðarmenn munu hafa sex ráðherra en hægri flokkarnir átta ráðherra. Stjórnin hyggst gera verulegar umbætur í lífeyrismálum en án þess að hækka skatta. Eftir 2015 á ekki að taka frekari lán. Fram til ársins 2017 á að auka útgjöld og fjárfestingar um 23 milljarða evra. Börn sem fæðast í Þýskalandi en eiga erlenda foreldra fá nú tvöfaldan ríkisborgararétt.  Frá og með 2015 verða lágmarkslaun á klukkustund 8.50 evrur um allt Þýskaland. Fram til 2017 er hægt að gera undantekningar. Stjórnvöld vilja í auknum mæli nýta græna orku. Dagana 6. til 12. desember munu 475000 félagar í SDP kjósa um ríkisstjórnarþátttöku flokksins. Kosningar eru gildar ef þátttaka er amk 20% eða tæplega 95000 kjósendur. Ef þetta gengur ekki eftir verður haldinn aukalandsfundur og 14. desember liggur ákvörðun fyrir. Allt bendir til þess að 17. desember verði Merkel kosin kanslari á Sambandsþinginu-Bundestag. 

Kasparov um einvígi Carlsen og Anand.

Garry Kasparov fyrrum heimsmeistari í skák ritar grein í Time um einvígið á Indlandi. Greinin ber yfirskriftina : nýr konungur fyrir nýtt tímabil í skáklistinni. Hann segir að Carlsen hafi haft yfirburði í einvíginu og það komi hvorki á óvart né kasti rýrð á einvígið. Anand hafi verið að tefla á móti sterkari skákmanni og-nú gerist Kasparov háfleygur-einnig gegn straumi tímans og sögunnar. Carlsen er nátturuafl og tími hans er kominn. Úrslitin í Chennai voru óumflýjanleg. Helsti styrkleiki Carlsen er ótrúlegt innsæi þegaar hann teflir einfaldar stöður. Hann metur stöðurnar af mikilli nákvæmni og stundum án þess að gera nákvæma útreikninga. Carlsen er líkur Capablanca og Karpov. Hann skynjar samræmið á skákborðinu eins og tónlistarmaður hinn rétta tón. Úrslit einvígisins er mikill sigur fyrir Noreg og sársaukafullt fyrir Anand og Indland. Carlsen hefur verið nefndur Mozart skáklistarinnar. Carlsen er fyrsti heimsmeistarinn sem elst uppí tölvuumhverfi. Tölvur hafa haft áhrif á skákstíl skákmanna af kynslóð Carlsens. Hlutlægnin í taflmennskunni verður nánast vélræn. Ólíkt þessu byggir Carlsen mikið á innsæi. Það er margs konar grasrótarstarf í skáklistinni, segir Kasparov, en hún hefur liðið fyrir það að eiga ekki fyrirmyndir, leiðtoga, stjörnur á toppnum. Nú er framtíð skáklistarinnar háð Carlsen og framtíð hans er háð skáklistinni. Skákin getur höfðað til allra. Hún er nokkurs konar alheimstungumál sem menn skilja óháð þjóðerni, menningu og trú. Hvaðan skyldi næsti heimsmeistari koma -eftir 10 til 20 ár-, frá Kína? frá Afríku? (Time, Time 100).

Jens Stoltenberg:fjárlög hægri stjórnar í Noregi auka ójöfnuð.

Þau eru hluti af rangri efnahagsstefnu og eru mörg skref í ranga átt segir Stoltenberg. Enn alvarlegra er að þetta er aðeins byrjunin sagði hann í umræðum í Stórþinginu. Hingað til hefur Noregur verið land jafnaðar og samstöðu en nú er horfið frá þeirri braut. Skattatillögur sýna þetta vel. Hjá þeim sem hafa hærri tekjur en tvær milljónir króna(norskra) lækka skattar um 40000 kr en hjá þeim sem hafa minni tekjur en fjögur hundruð þúsund er engin lækkun skatta. Það er þrengt að barnafjölskyldun, leikskólar verða færri og dýrari. Hagur fjölskyldna innflytjenda mun verða verri vegna stefnu hægri stjórnarinnar. Í þessum hópi er stór hluti með lág laun og framfærsla þeirra verður dýrari. Stefna hægri stjórnarinnar í umhverfismálum lýsir skammsýni og skilningsleysi segir Stoltenberg. Til þess að mæta tekjutapi vegna skattalækkana tekur ríkisstjórnin fjóra milljarða norskra króna úr Olíusjóðnum. Lækkun skatta á að auka framleiðni og auka samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Ekkert bendir til þess að svo muni verða. OECD hefur meðal annarra varað við því að nota fjármuni úr Olíusjóðnum. Kostnaður er mjög hár í norsku atvinnulífi og þess vegna er það viðkvæmt í samkeppni.(Arbeiderpartiet.no)

Af landshögum.

Árið 2010 voru afgreidd 3992 sakamál hjá héraðsdómstólum landsins. Árið áður voru málin 4428 talsins. Nær öll komu málin frá lögreglustjóraembættum eða 99%. Árið 2012 var meðalfjöldi afplánunarfanga 124 og voru karlar 119 eða 96%. Það voru því 5 konur að meðaltali í fangelsum þetta ár. Fíkniefnabrot var helsta ástæða dóms en næst komu auðgunarbrot og ofbeldisbrot. 75% allra brota eru hins vegar umferðarlagabrot. Heildarfjöldi allra skráðra brota í fyrra var 62837. 

Fátækir Þjóðverjar deyja fyrr...

Þýskur vinnumarkaður aldrei verið jafn stór og fjölmennur og nú. En það njóta þess ekki allir. Fleiri lifa nú í skugga fátæktar en árið 2007. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar þar sem lífslíkur fátækra og fólks með mjög lágar tekjur eru minni en annarra. Árið 2012 voru 41.5 milljón manna á þýskum vinnumarkaði. Heildarfjöldi vinnustunda var hins vegar minni en fyrir 20 árum. Sífellt fleiri eru í hlutastörfum og almennur vinnutími styttist. Sá sem hafði minna en 980 evrur á mánuði 2011 var fátækur. Þeir sem eru í hættu að verða fátækir eru nú 16.1% af heildinni. Fólk á aldrinum 55 til 64 ára er í sérstakri hættu. Hópur þeirra sem búa við fátækt til lengri tíma vex. Fátækt hefur mikil áhrif á heilsu og hversu lengi fólk lifir. Þeir sem eru í hæsta tekjuhópnum geta búist við að lifa 11 árum lengur en þeir sem eru í lægsta tekjuhóp. (Der Datenreport 2013).


Evrópski Seðlabankinn og ríki SuðurEvrópu.

Stýrivextir eru við núllið en samt sem áður taka bankar í Suður Evrópu nánast engin lán. En nú hafa komið fram nýjar kröfur. Seðlabankinn á að kaupa ríkisskuldabréf líkt og gert er í USA og Japan. Markmiðið er annars vegar að koma hjólum atvinnulífsins af stað(sic) og hins vegar að bæta stöðu bankanna. Í USA kaupir Seðlabankinn í hverjum mánuði ríkisskuldabréf og fasteignaverðbréf fyrir 85 milljarða dollara. Stjórnmálamenn í Suður Evrópu benda á að í USA, Japan og Bretlandi hafi þessum ráðum verið beitt með árangri. Þess vegna beri að gera það sama á evrusvæðinu. Í ESB eru kaup á ríkisskuldabréfum mjög umdeild og í samningum eru settar skorður við aðferðum ríkisins til fjáröflunar. Í sumar var því lýst yfir að Seðlabankinn myndi kaupa ríkisskuldabréf kreppulandanna á eftirmarkaði. Þessi kaup voru þó háð margvíslegum skilyrðum , t.d. þeim að ekki yrði keypt bréf frá ríkjum sem þegar nytu fyrirgreiðslu frá björgunarsjóði evrusvæðisins ESM. Innan Seðlabanka Evrópu er tekist á um stefnu og aðgerðir. Þjóðverjar óttast mest verðbólgu sem virðist ástæðulaust í ljósi þess að hún er nu 0.7% á evrusvæðinu. Aðrir óttast verðhjöðnun og stöðnun.....

Afghanistan; grýttur til bana vegna hjúskaparbrots.

Í dómsmálaráðuneytinu í Kabúl er verið að vinna að frumvarpi sem felur í sér afturhvarf til stjórnarhátta Talibana. Refsing við hjúskaparbroti verður samkvæmt fumvarpinu að vera grýttur til bana. það er hópur lögfræðinga í dómsmálaráðuneytinu sem hefur samið frumvarpið og því er ætlað að vera endurbót á hegningarlögum og refsirétti. Ef annar aðili er gift/kvæntur þýðir þetta dauðadómur yfir báða sem hafa haft kynmök. Ef hvorugur er giftur/kvæntur er refsing 100 svipuhögg á opinberum stað. Refsilöggjöf frá 1976 er nú í endurskoðun. Talsmaður stjórnarinnar hefur lýst því yfir að landið muni standa við alþjóðlegar skuldbindingar og samninga. Talibanar notuðu umræddar aftökuaðferðir fram til ársins 2001. Ríkisvald er veikt í landinu og fjölskyldur og ættir leysa sín mál með harkalegum og hefðbundnum aðferðum. Í sumum héruðum fara menn sínu fram án tillits laga. Stjórnin í Kabúl hefur ekki vald til að framfylgja lögum. Frumvarpið eref til vill viðurkenning á því. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband