Færsluflokkur: Bloggar

Á SUS að biðjast afsökunar?

Ungir sjálfstæðismenn hafa skorað á Eygló Harðardóttur og Sigurð Inga Jóhannsson að biðjast afsökunar á því að hafa tekið þátt í því að samþykkja ákærur á hendur Geir H Harde. Nú yfirsést ungu mönnunum að Eygló og Sigurður Ingi voru einnig meðflutningsmenn frumvarpsins um að Alþingi ákærði Geir. Gott og vel. Þetta er ekki ný hugmynd. Eldri og virðulegri sjálfstæðismenn hafa sett fram slíkar hugmyndir á netmiðlum og samfélagsmiðlum. Í þeim hópi eru nokkrir fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hver skyldi nú vera hugsunin? Eiga framsóknarmenn að sanna eftir á að þeir séu verðugur samstarfsaðili? Hvað þá um dómara í Landsdómi? Eiga þeir líka að biðjast afsökunar? Þetta leiðir hugann að skýrslu Rannsoknarnefndar Alþingis. Nefndarmenn ræddu við fjölmarga menn sem sátu í valdastöðum í bankakerfi , í  opinberri stjórnsýslu og einnig  var rætt við stjórnmálamenn. Enginn þeirra taldi ástæðu til að biðjast afsökunar á því sem hann hafði gert eða ekki gert í aðdraganda Hrunsins. 

Breiðu bökin borga auðlegðarskatt.

Þessi skattur hefur verið umdeildur. Sumir telja hann óréttlátan og hugsanlega í andstöðu við stjórnarskrána. Hann sé hugsanlega eignaupptaka. Aðrir telja hann réttlátan og löglegan. Eðlilegt sé að efnamiklir einstaklingar leggi sitt af mörkum í efnahagslegum þrengingum. Dómstólar verða að skera úr um þetta og eitt mál mun nú þegar hafa verið dómtekið. Skattstofninn er hrein eign einstaklinga eða hjóna. Ef einstaklingur á 75 milljónir eða meira borgar hann slíkan satt og ef um hjón er að ræða er talan 100 milljónir. Skattprósentan er ýmist 1.5% eða 2%. Ef eign er meiri en 150 milljónir hjá einstakling og 200 milljónir hjá hjónum er próseentan 2%. Nú eru aðstæður eignafólks auðvitað mismunandi. Það er á mismunandi aldri og sumir hættir virkri atvinnuþátttöku. Tekjur þeirra eru mismunandi og eignir tilkomnar með mismunandi hætti. Margir erfa eignir frá auðugum foreldrum en aðrir hafa komist í álnir af eigin rammleik t.d. í viðskiptum. Hópur stóreignafólks á Íslandi er ekki stór og hann er hægt að kortleggja nákvæmlega. Auðvitað kemur í ljós að margir stóreignamenn eru skyldir og tengdir. Sumir eru mjög áberandi í þjóðlífinu eins og eigendur stórfyrirtækja og stjórnmálamenn. Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér untan þings og innan gegn auðlegðarskatti. Skatturinn er talinn ólögleg eignaupptaka. Það eru stór orð og afar ólíklegt að þeir þingmenn sem þau sögðu geti staðið við þau. Löggjafinn hefur víðtækt vald til skattlagningar ef farið er eftir ákveðnum grundvallar reglum. Skattlagnig má ekki vera óbærilega há eða fela í sér brot á jafnræðisreglu.

Tjáningarfrelsið og íslenskir ritstjórar.

Í breska blaðinu Observer birtist í dag opið bréf til Camerons forsætisráðherra frá fjórum norrænum ritstjórum. Það eru ritstjórar Politiken, Aftenposten, Dagens Nyheter og Helsinki Sanomat. Í bréfinu er því haldið fram að opin umræða sé eitt helsta einkenni lýðræðis og um leið mesti styrkleiki þess. Jafnframt hefur hvert ríki rétt til að tryggja innra öryggi sitt. Milli þessara grundvallargilda getur myndast spenna og erfitt að finna jafnvægi á milli. Atburðir í Bretlandi í síðustu viku valda miklum áhyggjum. Skylda okkar er að vernda þá einstaklinga sem taka þátt í lýðræðislegri umræðu á grundvelli laga. Við erum mjög undrandi á breskum yfirvöldum sem nota hryðjuverkalög til að yfirheyra og beita einstaklinga þrýstingi. Þetta gæti haft áhrif að aðgerðir yfirvalda í öðrum löndum. Aðgerðirnar eru í mikilli mótsögn við stolta breska hefð þar sem mannréttindi og lýðræði eru í forgrunni. Þetta er efnilega innihald bréfsins. En nú vaknar spurningin ; hvers vegna var enginn íslenskur ritstjóri með í hópnum sem ritaði bréfið? Var ekki haft samband við neinn eða vildi enginn vera með? Við gerum fastlega ráð fyrir að svör við þessu fáist nástu daga.

Ofbeldi gagnvart börnum.

Á heimasíðu Barnaverndarstofu má lesa skýrslu frá árinu 2010 eftir Steinunni Bergmann. Þar koma fram margvíslegar upplýsingar um þennan viðkvæma málaflokk sem ofbeldi gagnvart börnum er.  Árið 2006 bárust 417 tilkynningar til barnaverndarnefnda. Í 329 var grunur um líkamlegt ofbeldi en 88 tilkynningar voru vegna gruns um vanrækslu eða annars konar ofbeldi. Í ljós kom að 189 tilkynningar voru vegna gruns um ofbeldi af hálfu foreldra. Karlar voru í meirihluta meintra gerenda eða 62%.  Drengir á aldrinum 6 til 10 ára voru fjölmennasti hópur þolenda. Hlutfall barna af erlendum uppruna var hærra en heildarhlutfall af börnum gaf tilefni til. Tilkynningar virðast snerta aðstæður þar sem foreldrar hafa misst tök á uppeldinu. Þá er gripið til þess að lörunga börn, rassskella , hrinda eða sparka. Sjáanlegir áverkar voru í 36 tilvikum og áverkavottorð gefið út í 9 tilvikum. Í 5 tilvikum óskaði barnaverndarnefnd lögreglurannsóknar. Í 2 tilvikum voru mál felld niður en ekki var vitað um lyktir þriggja mála.  Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem líkamlegar refsingar barna eru algerlega bannaðar. Málið er flókið og viðkvæmt. Ekki eru öll mál tilkynnt til barnaverndarnefnda. Tilkynningar til barnaverndarnefnda hafa verið fáar hér á landi í alþjóðlegum samanburði en það gæti þýtt að hluti mála kæmi ekki uppá yfirborðið.

Manndráp á Íslandi.

Í alþjóðlegum samanburði eru morð ekki algeng hér á landi. Hér hefur til skamms tíma ekki verið skipulögð glæpastarfsemi sem beitir ofbeldi. Morð eiga sér því stað í öðru samhengi. Með nokkurri einföldun má segja að hinn dæmigerði gerandi sé ungur einhleypur karl með sakaferil að baki. Ef um náin tengsl var að ræða brutu karlar gegn fyrrverandi eða núverandi maka. Á Íslandi eru náin tengsl gerenda og þolenda algeng. Í greiningu á manndrápsmálum 1921 til 1990 kom í ljós að einungis í 33% þekktust gerandi og þolandi lítið eða ekkert. Meðalaldur gerenda á sama tímabili var 28. 6 ár. Mikill meirihluti brotamanna eru ógiftir eða ekki í sambúð. 8% gerenda voru ósakhæfir vegna geðrænna sjúkdóma en mun fleiri áttu við geðræna sjúkdóma að stríða. Ef þannig er þá eru menn líklegri til að drepa ókunnuga. Algengasti brotastaður er heimili brotaþola og sameiginlegt heimili brotaþola og geranda. 73% brota áttu sér stað í Reykjavík og nágrenni. Morð eru af ýmsum toga og hvert morð hefur sín sérkenni. Morð getur verið hluti af fjölskylduharmleik. Það getur líka verið hluti af ágreiningi eða uppgjöri. Áfengi og fíkniefni skiptir oft máli. Morð geta verið þrautskipulögð eða framin í æðiskasti. Margt bendir til þess að morðtíðni muni hækka hér á landi á næstu árum. 

Hrunið og efnahagsafbrot.

Eftir einkavæðingu bankanna 2002 færðist smá saman mikið vald frá ríkisvaldinu til fjármálastofnana. Lög um fjármálaviðskipti voru einfölduð og bankarnir fengu aukið svigrúm til lántöku, lánveitinga og fjárfestinga. Sköpunarverki tók meir og meir völd frá skapara sínum og það leiddi til margvíslegra átaka. Árin á undan hruninu höfðu skapað siðrofsástand. Fjármálalöggjöfin var óljós og götótt, eftirlit lítið og ekki samræmt milli stofnana og valdakerfi, stjórnunarhættir og launakerfi fjármálastofnana ýtti undir spillingu, óeðlilega fyrirgreiðslu og valdbeitingu. Í fyrirtækjamenningu bankanna voru lög hindrum sem reynt var að yfirstíga með skapandi krafti. Mælikvarðinn á það hvað er löglegt og ólöglegt, rétt og rangt verður fljótandi og ógreinilegur. Dæmi um þetta er olíumarkaðurinn eins og hann var á sínum tíma þar sem stjórnendur gerðu ekki greinarmun á samkeppni og samsteypu(kartell). Embætti Sérstaks Saksóknara var stofnað 1.2. 2009. Of snemmt er að leggja mat hver árangur hefur verið. Hins vegar er nauðsynlegt að draga lærdóma af Hruninu.. Það er ljóst að hvorki íslenskum bankamönnum né stjórnmálamönnum  verður kennt um alþjóðlega fjármálakreppu. Það sem kom á undan hruninu var að löggjöf var einfölduð(deregulation) og bönkum gefið  mikið svigrúm. Á sama tíma er eftirlit lítið og illa samræmt. Á sama tíma þróast mjög sérstök menning innan fjármálageirans. Það liggur fyrir að taka verður á öllum þesum atriðum. Við þurfum ekki að finna upp hjólið. Aðrar þjóðir hafa gengið í gegnum bankakreppur og lært af því.

Efnahagsbrot á Íslandi.

Þegar minnst er á efnahagsbrot dettur líklega flestum í hug brot á skattalögum og svökölluð svört vinna. Þetta eru mikilvægar tegundir og oft fréttaefni. Efnahagsafbrot fela í sér misnotkun á valdastöðu til að afla ólögmæts ávinnings. Það er ljóst að slík afbrot valda fjárhagslegu tjóni. Þau valda ekki síður miklu siðferðilegu tjóni. Á árunum fyrir Hrun á sér aukning efnahagsafbrota hér á landi. Mikill vöxtur var í hagkerfinu, regluverkið óljóst og spilling í fyrirtækjamenningu fjármálafyrirtækja. Í þessum brotaflokki eins og sumum öðrum er langur vegur frá verknaði til rannsóknar og ákæru. Ísland gerist aðili að EES-samningi 1994. Samkeppniseftirlitið er stofnað 1993 og FME flutt frá Seðlabanka 1999. Með einkavæðingu bankanna stækkarr fjármálamarkaðurinn mjög hratt og yfirvöld hafa ekki lendur stjórn á því sem þar gerist. Fjármálamarkaður er í eðli sínu alþjóðlegur en það eru eftirlitsstofnanir ekki. Við slíkar aðstæður verða lög hindrum fyrir fjárfesta sem reynt er að komast í kringum. Græðgi og frami eru ofar lögum. Málum í meðferð hjá Samkeppniseftirliti fjölgaði mikið eftir 2005. FME er stofnað 1999 og eru tekjur þess frá fjármálastofnunum sem það hefur eftirlit með. Auknig á tekjum FME hefur þó ekki verið í neinu samræmi við vöxt fjármálastofnana. Fyrstu árin átti FME í harðri samkeppni við bankana um starfsfólk en þeir buðu yfirleitt mun betri laun. Embætti Skattrannsóknarstjóra verður til 1993. Skattsvik, bókhaldsbrot og fjársvik hafa verið algengustu tegundir brota hér á landi. Það eru karlmenn fremur en konur sem fremja efnahagsbrot og þeir eru helst á aldrinum 40 ára til 50 ára en í mörgum öðrum brotategundum eru menn mun yngri.  Árið 2011 var áætlað að töpuð gjöld vegna svartrar vinnu væru yfir 10 milljarðar á ársgrundvelli.

Eru fjármálastofnanir landeigendur?

Samkvæmt Lögbýlaskrá voru um 90 lögbýli í eigu fjármálastofnana um síðustu áramót. Það er 1.4% allra lögbýla. Landsbankinn og dótturfélög hans áttu 48 lögbýli og hefur bankinn eignast býlin vegna skuldaskila. Jarðir þessar eru nú langflestar í söluferli en allmargar í útleigu. Um áramótin átti Arionbanki 20 lögbýli en á nú 28. Allar eru jarðirnar í söluferli og 3 í útleigu.  Íslandsbanki á nú 6 jarðir og er ein í útleigu. UM áramótin átti Íbúðalánasjóður 2 jarðir sem er afar óvenjulegt. Tvö lögbýli eru í eigu félags sem er í eigu Gamla Landsbankans. Kaupfélag Skagfirðinga( innlánadeild) á 10 lögbýli. Í 4 lögbýlum á KS 50% hlut.  Þessar upplýsingar eru fengnar úr Bændablaðinu en þar eru ekki dregnar neinar sérstakar ályktanir af stöðu þessara mála eða tölurnar settar í sögulegt samhengi.

Börn eru fórnarlömb stríðsins í Sýrlandi.

Unicef sendir frá sér fréttatilkynningu í dag. Átökin í Sýrlandi hafa nú staðið í þrjú ár. Fjöldi barna sem hefur flúið heimaland sitt er nú ein milljón. Börnin eru rifin frá heimkynnum sínum og hafa horfst í augu við skelfilega og óskiljanlega grimmd. Allir hafa brugðist börnunum. Alþjóðasamfélagið hefur brugðist börnunum segir framkvæmdastjóri UNICEF.Æska Sýrlands hefur glatað heimilum , fjölskyldu og framtíð. Hryllingur stríðsins mun fylgja þeim um ókomin ár. Börn eru um helmingur flóttamanna frá Sýrlandi sem flýja til m.a. til Jórdaníu, Tyrklands, Írak, Norður-Afríku og Evrópu. Áætlað er að 7000 börn hafi látist á átökunum í Sýrlandi. Börnin er flýja land sitt eru í sérstakri hættu. Þau gætu verið þvinguð til erfiðrar vinnu, neydd til að giftast mjög ung, neydd til að stunda vændi eða seld mansali. Meira en 3500 börn í Líabanon, Jórdaníu og  Írak hafa orðið viðskila við foreldra sína. UNICEF og UNCHOR hafa beitt sér fyrir víðtæki hjálparstarfi. En mikið starf er framundan og mikla fjármuni þarf að segja í hjálparstarfið. 

Ástand á vinnumarkaði; mat VMST og Hagstofu Íslands.

Í júlí var skráð atvinnuleysi 3.9% og atvinnulausir að meðaltali 6874. Að meðaltali voru 700 í hlutastarfi. Það sem af er árinu er skráð atvinnuleysi 4.8% samkvæmt Vinnumálastofnun. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum eða 5.4% en minnst á Norðurlandi vestra 1%.Tæplega ellefu hundruð manns eru í vinnumarkaðsúrræðum. 1299 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu þar af 701 Pólverji. Laus störf hjá Vinnumálastofnun voru 229 og þar af 74 fyrir ósérhæft starfsfólk. Ekki kemur framtil hversu langs tíma  þessi störf eru. Vinnumálastofnun spáir 3.9% til 4.2% atvinnuleysi í ágúst.  Allar tölur VMST miðast við rétt til atvinnuleysisbóta. 

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í júlí 3.1%. Atvinnuleysi karla var 3.6% en kvenna 2.6%. Á vinnumarkaði voru að jafnaði 194200 og atvinnuleitendur 5900. Þessar tölur eru ekki árstíðaleiðréttar.  Að jafnaði voru 192400 manns á vinnumarkaði. Samkvæmt Hagstofunni voru atvinnulausir kalrar 3600 en konur 2300. Hagstofan gerir vinnumarkaðskannanir og síðasta var gerð 4 vikur í júlí. Í úrtakinu voru 1204 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 og valdir með tilviljanaaðferð úr þjóðskrá. Samkvæmt þessari könnun má fullyrða með 95% öryggi að atvinnuleysi í skilningi Hatofunnar sé á bilinu 2.9%-4.3%.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband