Færsluflokkur: Bloggar
17.8.2013 | 12:58
Færeyingar stefna ESB.
ESB hefur tekið ákvörðun um að beita Færeyinga refsiaðgerðum vegna aukningar þeirra á síldarkvóta. Danir voru á móti ákvörðuninni en lentu í minnihluta. Refsiaðgerðir í slíkum deilum eru mjög tvíbent vopn og eru á skjön við fjölmörg alþjóðalög og sáttmála. Rök ESB og t.d. Norðmanna er að ef allir tækju Færeyinga sér til fyrirmyndar yrði síldarstofninum eytt á skömmum tíma. Nefnd á vegum Hafréttatsáttmála SÞ mun nú taka stefnu Færeyinga fyrir. Danir munu nú mæta framkvæmdarstjórn ESB fyrir gerðardómnum. Færeyingar hafa hingað til veitt 5% af sameiginlegum síldarstofni en hafa nú ákveðið að veiða 17%. Augljóst er að það kemur sér illa fyrir skoskar útgerðir. Hingað til hefur ESB veitt 7% og ísland 15%. Norðmenn hafa veitt 61% og Rússar 13%. Breytt hitastig og fæðuframboð hefur breytt gengd margra fiskitegunda. Fiskifræðin er ekki nákvæm vísindi þegar kemur að því að ákveð stofnstærð og veiðistofn. Meginreglan er sú að um flökkustofna og deilistofna hafa þjóðir gert samninga. Eðli málsins er það ekki einfalt vegna óvissu um stærð stofna og hagsmunatogstreitu. Íslenska ríkisstjórnin hefur mótmælt hótunum ESB og talið þær í andstöðu við alþjóða samninga og EES samninginn. Í þessari deilu virðast Færeyingar og Íslendingar standa einir. Samtök sjómanna í Danmörku og Noregi styðja refsiaðgerðir ESB. Í hagsmunaátökum eru engir vinir og frændþjóðir eingöngu bandamenn og andstæðingar.
17.8.2013 | 09:40
Kosningar í Noregi. Eru úrslitin ráðin?
Kosningar eru í Noregi þann 9da september. Á kjörskrá eru 3.6 milljónir. 13 listar bjóða fram í öllum fylkjum en átta listar í færri. Á Stórþingið eru kosnir 169 þingmenn.Stjórn þriggja flokka undir forystu Jens Stoltenberg hefur verið við völd frá 2005. Í kosningunum 2009 hélt hún velli þrátt fyrir að fá færri atkvæði en stjórnararandstaðan. Í rúmt ár hafa skoðanakannanir verið mjög stöðugar og sýnt miklar breytingar. Stjórnarflokkarnir eru allir að tapa fylgi og einn borgaralegur lokkur Höyre vinnur mjög mikið á. Aðrir hægri flokkar tapa hins vegar. Samkvæmt könnunum mun Ap fá 28%, Sp 4.6%, og Sv 3.9%. Samtals munu stjórnarflokkarnir fá 36.5%. Höyre er ekki langt frá því að tvöfalda fylgi sitt og er nú spáð 31.6% og verður þar með stærsti flokkurinn.Frp dalar í fylgi er er spáð 13.6% Krf er einnig spáð minna fylgi eða 5.2%. V er spáð 5.2%. Borgaralegu flokkarnir fá því samkvæmt spám 58.2%. Óvíst er um samstarf þessara flokka verði þetta útslitin. Framboðslistar eru 21 og þar kennir margra og ólíkra grasa. Nefna má Folkelisten mot oljeboring i Lofoten, Vesteralen og Senja. Listinn býður fram í Norland fylki og gerir það í fyrsta skipti. Nokkrir framboðslistar berjast fyrir einu máli. Nefna má Sjúkrahús í Alta sem býður fram í Finnmerkurfylki.
16.8.2013 | 23:20
Kosningar í Þýskalandi og Evrópuvaktin.
Zdf er þýsk sjónvarpsstöð og hún gerir reglulega kannanir á pólitískum viðhorfum kjósenda. Hvað myndir þú kjósa ef kosningar væru næsta sunnudag, er klassísk spurning. Núna kom í ljós að 41% myndu kjósa CDU/CSU (flokkur A Merkel) , 25% SPD (flokkur jafnaðarmanna) 5% FDP, 8% Die Linke(flokkur vinstra megin við SPD) 13% Græningja,3% Pírata, og 5% aðra. 72% segja að vel komi til greina að kjósa annan flokk en gefinn er upp. 63% telja að úrslitin séu ekki ráðin en sama hlutfall telur sigur A Merkel líklegan. Atvinnumál og félagslegt réttlæti eru mikilvæg mál þegar kjósendur gera upp hug sinn. Þar á eftir kemur kreppa evrusvæðisins. 26% segja að njósnamálin skipti mestu. En hver á að vera næsti kanslari? 63% segja Merkel og 29% Steinbruck (kanslaraefni jafnaðarmanna). Könnunin var gerð 13 til 15 ágúst. En hvað með Evrópuvaktina?Hún segir frá sömu könnun en virðist ekki átta sig á því að í Þýskalandi er þriggja flokka stjórn en ekki tveggja ;). Bæði SPD og CDU/CSU hafa útilokað stóra samsteypustjórn eins og vaktin virðist halda að þetta sé möguleiki.... Evrópuvaktin fer með ranga tölu hvað varðar mikilvægi NSA málsins. Um þetta allt má lesa á slóðinni : www.heute.de.
16.8.2013 | 19:47
Á að stytta nám í framhaldsskólum í þrjú ár?
Menntamálaráðherra hefur lýst þeim vilja sínum að stytta nám í framhaldsskóla í þrjú ár. Í flestum nálægum löndum tekur námið einmitt þrjú ár. Dæmigerður framhaldsskóli í Noregur tekur til starfa fljótlega eftir miðjan ágúst. Honum lýkur um eða eftir miðjan júní. Fyrir nemandann hér myndi slíkt skipulag stytta sumarfrí um fimm til sex vikur. Yfirgnæfandi meirihluti nemenda vinnur allt sumarfríið til að fjármagna námið. Ef þeir eru í vel launuðu starfi nægir peningurinn. Þetta myndi augljóslega breytast ef skólatíminn yfir lengdur á árinu. Hvernig á þá að mæta fyrirsjáanlegu tekjutapi? Hvaða möguleikar eru aðrir? Að lengja námstíma á hverjum degi? Kenna á laugardögum?Þyngja námið og hraða yfirferð? Yfir sumartímann eru nemendur mikilvægur starfskraftur, t.d. í hinni hraðvaxandi grein ferðaþjónustu. Örfáar vikur á hverju sumri er háannatími eins og kunnugt er. Kennarar hafa einnig aukið við tekjur sínar með störfum í sömu grein á sama tíma. Kerfisbreytingar eru flókið mál. Hér er ekki verið að halda því fram að stytting náms í framhaldsskóla sé röng stefna hins vegar verður að skoða alla þætti málsis í upphafi.
16.8.2013 | 17:38
Ísland, Færeyjar og Hoyvíkursamningurinn.
Samningurinn er mjög víðtækur fríverslunarsamningur. Í honum er afnám allra tolla á landbúnaðarafurðir. Samningurinn var undirritaður í Hoyvík í Færeyjum árið 2006. Samningurinn tekur til vöruviðskipta, þjónustuvuðskipta, fjármagnsflutninga, búseturéttar, fjárfestinga og nokkurra fleiri atriða. Auk þess skapar hann ramma um samstarf þjóðanna á fjölmörgum sviðum. Samningurinn er merkilegur að því leyti að hann afnemur alla tolla á landbúnaðarvörum á gagnkvæmisgrundvelli. Túlkun upprunareglna landbúnaðarafurða hefur verið ágreiningsmál milli þjóðanna. 2012 fluttu Íslendingar út vörur til Færeyja fyrir tæpa 7 milljarða króna. Inn voru fluttar vörur frá Færeyjum fyrir 1.3 milljarð.
16.8.2013 | 13:11
Íbúðalánasjóður safnar íbúðum.
Lánveitingar ÍLS minnka ár frá ári. Á fyrstu 7 mánuðum þessa árs voru þær 25% minni en á sama tímabili í fyrra. Þær eru innan við helmingur af útlánum sama tímabils 2011. Uppgreiðslur eru meiri en útlán þannig að útlánasafnið er að minnka að raungildi. Vanskil einstaklinga námu 5 milljörðum króna í júlílok. Í júlílok átti sjóðurinn 2578 íbúðir en það eru nálægt 2% allra íbúða í landinu. Íbúðum fjölgaði um 300 það sem af er þessu ári. Tæplega helmingur allra fasteigna í eigu sjóðsins var áður í eigu einstaklinga. Á Suðurnesjum á sjóðurinn 817 íbúðir. 23% fasteigna sjóðsins eru á höfuðborgarsvæðinu. 1197 íbúðir eru nú í útleigu, 860 í sölumeðferð en 283 óíbúðarhæfar.
16.8.2013 | 12:05
Ástand vinumarkaða á Norðurlöndum.
LO-Landesorganisasjonen í Norge hefur sent frá sér samantekt um vinnumarkaðinn á Norðurlöndum. Ástand á vinnumarkaði er best í Noregi en erfiðast í Danmörku. Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er ríkissjóður rekinn með afgangi. Hvað atvinnuleysi sker Noregur sig úr en öll Norðurlöndin eru talsvert fyrir neðan meðalatvinnuleysi á Evrusvæðinu. Atvinnuþátttaka mest hér á landi en minst í Finnlandi en þar er hún tæp 70%. Hagvöxtur er mestur í Noregi og þar á eftir kemur Ísland. Í Finnlandi er enginn vöxtur. Atvinnuleysi er minnst í Noregi og þar á eftir hér á landi. Í Svíþjóð og Finnlandi er mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks. Ungt fólk sem er hvorki í vinnu né námi er fæst í Noregi og næstfæst hér á landi. Í þessum samanburði kemur Ísland alls ekki illa út. (www.lo.no)
16.8.2013 | 10:41
Er Ísland góður kostur fyrir erlenda fjárfesta? Já og nei.
Stutta svarið er já og nei. Landið hefur uppá marga góða kosti að bjóða. Raforkuverð er lágt. Landrými er nægt og lofthiti heppilegur. Menntunarstig er tiltölulega gott. Hins vegar er bein erlend fjárfesting ekki mikil í alþjóðlegum samanburði. Þær hafa auk þess verið bundnar við orkufrekan iðnað og stóriðju. Á heimsvísu er landið ósamkeppnishæft þegar kemur að beinum erlendum fjárfestingum. Ástæða þess eru óstöðugt efnahagslíf og pólitísk inngrip í efnahagslífið. Lagarammi og verklagsferli hafa ekki þótt nógu skýr. Beinar erlendar fjárfestingar fyrir utan stóryðju hafa ekki verið miklar. Nefna má ; Dressmann í Reykjavík, Brammer, Rosche Niblegen, CRI, Verne Global, Framestore, Fjarðalax og Becromal. Gjaldeyrishöftin hafa haft veruleg áhrif á beinar erlendar fjárfestingar. Skipta má erlendum fjárfestum í tvö flokka. Annarsvegar þeir sem koma af ees-svæðinu en þeir njóta hér mikilla réttinda en hins vegar þeir sem eru utan svæðisins. Fyrir þá er fjárfestingarleiðin erfiðari og meðal annars háð beinum leyfum stjórnvalda. Beinar erlendar fjárfestingar geta haft jákvæð áhrif. Þær auka hagvöxt og flytja nýja tækni og þekkingu inní landi. Stjórn fyrirtækisins er hins vegar í höndum eigenda. Íslensk hafa og geta notað ýmsar aðferðir til að lokka erlenda fjárfesta til landsins en samkeppni á þessum markaði er mjög hörð. Nefna má ; endurgreiðsla vsk, afsláttur af margvíslegum gjöldum og lækkun fyrirtækjaskatta. Einnig margvíslegar undanþágur.
16.8.2013 | 09:43
Eru skólatöskur og heimanám tímaskekkja?
Í Akureyrivikublað.is er viðtal við Ágúst Ólason fyrrverandi skólastjóra. Hann segir skólatöskur tímaskekkju og virðist eiga við að heimanám sé tímaskekkja. Nú geta skólatöskur verið þungar og dýrar og stundum mikilvægt að eiga vandaða skólatösku en það virðist ekki kjarni málsins. Það er betra fyrir börnin að þau búi sig undir nám næsta dags, lesi, reikni og geri verkefni að lokinni kennslu. Þegar börnin koma heim eru þau búin í sinnu vinnu. En hver eru rökin? Svo merkilegt er að þau eru engin og í athugasemdum koma þau heldur ekki fram. Það er einfaldlega fullyrt að um óþarfa hefð og tímaskekkju sé að ræða. Nú mál það vel vera að þetta sé rétt, en hver er skýringin? Hafa foreldrar vegna vinnu eða annars engan tíma lengur til að aðstoða börn við heimanám? Með heimanámi geta foreldrar fylgst náið með námsframvindu barnsins. Er það ekki lengur mikilvægt? Er stuðningur og hvatning ekki lengur mikilvæg? Grunnskólar gegna margvislegu hlutverki ; þeir miðla þekkingu og fræðslu, þeir efla færni og þroska á mörgum sviðum og börnin eru í öruggri gæslu ákveðinn hluta dagsins. Eitt sinn töluðu félagsfræðingar um verkefnaþurrð kjarnafjölskyldu. Leikskólar, grunnskolar, íþróttafélög, tómstundastarf, netmiðlar og tölvuleikir hafa tekið yfir mikið af hlutverkum sem fjölskyldan sinnti áður á heimilum. Sumt af þessu er eðlileg þróun og æskileg en annað ekki. Engin eiginleg fjölskyldustefna er til hér á landi. Fjölskyldan er afgangsstærð. Það ætti að vekja til umhugsunar.
15.8.2013 | 20:58
Framhaldsskólinn og velferð kennara.
Framhaldsskólinn hefur verið til umræðu undanfarið. Einkum er það vegna brottfalls úr skólunum sem margir telja mjög mikið miðað við nálæg lönd. Tölfræðin í þessu máli er vandmeðfarin. Nú er rætt um að stytta nám í framhaldsskólum í þrjú ár. Talsmenn þessa sjá meiri árangur og skilvirkni í starfi með styttra námi. Undarlega lítil umræða hefur verið um kennarana sem bera þó uppi starf skólanna. Nú vill svo til að framhaldsskólinn hefur lítið verið rannsakaður mun minna en grunnskólinn. Nokkrar rannsóknir hafa þó verið gerðar og ein var um starfsánægju kennara. Í ljós kom að mikill meirihluti kennara taldi líkamlega, andlega og félagslega heilsu sína vera góða. Miklum meirihluta líkaði einnig vel við stjórnunarstíl skólastjórnenda. Langflestir töldu starfsandann góðan. 10% sögðust hafa verið áreittir á vinnustað. Um fjórðungur var ánægður með laun. Erfiðleikar í starfi voru einkum andlegir en ekki líkamlegir eða félagslegir. Mikill meirihluti vann vinnutengd verkefni heima. Tæpur helmingur fann fyrir álagi í kennslustundum. Niðurstaðan er sú að starfsánægja kennara er ein af forsendum árangursríks skólastarfs. (Netla 2010)
Um bloggið
Hrafn Arnarson
Tenglar
Mínir tenglar
- Næsta kreppa. Marxískur hagfræðingur skrifar um efnahagsmál.
http://thenextrecession.wordpress.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar