Færsluflokkur: Bloggar

14.8. 1945. Lok síðari heimsstyrjaldar.

Uppgjöf Japana í síðari heimsstyrjöld. Á þessum degi var tilkynnt um skilyrðislausa uppgjöf Japana. Herráð Japans fór að ráðum keisarans Hirohito og gafst skilyrðislaust upp þann 10. 8. Þann 6.8. hafði kjarnorkusprengju verið varpað á Hirosima og þann 9.8 var sprengju varpað á Nagasaki. 150 þúsund dóu í þessum sprengingum. Enn ríkir spenna milli Kína og Japans vegna grimmdarverka Japana í Kína.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar.

Erindisbréf hópsins er undirritað í byrjun júli. þar er farið almennum orðum um markmið og tilgang hópsins. Fara á yfir stóra útgjaldaliði ríkissjóðs og athuga kerfisbreytingar sem leiði til meiri framleiðni og betri nýtingar fjármuna. Tekið er sérstaklega fram að ekki skuli vera flatur niðurskurður allra verkefna. Það er reyndar undarlegt þar sem ekkert hafði verið minnst á niðurskurð í því sem á undan kom. Sumar setningar hljóma afar undarlega eins og að fara eigi heildstætt yfir verkefni ríkisins og meta  þörfina til framtíðar! Er hópnum kannski ætlað að setja fram kenningu í stjórnmálaheimspeki um hlutverk ríkisins? Hópurinn skal hafa víðtækt samráð við embættismenn og sérfræðinga. Auk þess hefur verið á vef forsætisráðherra verið sett upp svæði þar sem almenningur getur komið með hugmyndir. Nefndin skal síðan leggja fram tillögur sem verður hluti af fjárlagavinnu næsta árs. Verkefnið er risavaxið og þess vegna hefði mátt ætla að sérstaklega hefði verið vandað til mannvals í nefndina. Á vef Alþingis má lesa eftirfarandi: Ásmundur Einar er búfræðingur og með b-s- í almennum búvísindum. Hann er sauðfjárbóndi og hefur rekið verslun með ónefnd tól til landbúnaðarstarfa. Hvergi er minnst á stjórnsýslu og stjórnun þar. Vigdís Hauksdóttir er lögfræðingur. Hún hefur unnið sem garðyrkjumaður og blómaskreytir.  Ekki er þar heldur að finna stjórnsýslu og stjórnun. Guðlaugur Þór er með b-a próf í stjórnmálafræði. Hann hefur verið framkvæmdastjóri og forstöðumaður. Auk þess var hann ráðherra. Guðlaugur Þór stendur því mun betur að vígi en þau tvö fyrstnefndu. Unnur Brá er lögfræðingur. Hún hefur verið fulltrúi sýslumanns og sveitarstjóri. Segja má að hún standi best að vígi þar sem hún hefur lengsta beina reynslu af opinberri stjórnsýslu. Eitt er menntun og reynsla en annað er pólitísk stefna. Nú hefur einn í hópnum komið með glannalegar og klaufalegar yfirlýsingar. Hinir þrír hafa lítið tjáð sig. Við skulum segja að framtíðin sé óráðin og allar tillögur ómótaðar.

Traust á fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Á árunum 2009 til 2012 gerði MMR kannanir á trausti almennings til sjónvarps-prent-og netfréttamiðla. Í þessum könnunum kom fram afgerandi sérstaða fréttastofu Ruv. Í könnun í desember 2012  kom í ljós að rúm 75% báru mikið traust til fréttastofu ruv en 8% lítið traust. Kannanir fyrri ára sýndu svipaðar niðurstöður. Ruv hafði yfirburði yfir alla aðra miðla. Mér vitanlega hefur sambærileg könnun ekki verið gerð á þessu ári en í ljósi umræðu dagsins væri það mjög æskilegt. Nánast frá stofnun hefur ruv starfað eftir skrifuðum fréttareglum. Markmiðið er að halda frið um stofnunina og búa til þjóðarútvarp í almenningsþágu. Áhersla hefur verið lögð á form og óhlutdrægni í framsetningu ásamt fagmennsku. Því miður hafa ekki miklar rannsóknir verið gerðar á Ríkisútvarpinu. það hindrar málefnalega og skynsamlega umræðu að nokkru leyti gefur lýðskrumurum og þeim sem eru á móti ríkisrekstri aukið svigrúm. Fréttaflutningur ruv er ekki hafinn yfir gagnrýni en hún verður að byggjast á áreiðanlegri vitneskju. Ég þekki rannsókn á fréttaflutningi ruv á írakstríðinu en hann var greinilega bjagaður og hliðhollur USA.

Einkaneysla á miðju ári 2013.

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti nýlega mælingar á smásöluvísitölu. þar kemur í ljós að velta hefur aukist um 4% á föstu verðlagi eða 7.6% á breytilegu verðlagi frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 3.4% á sama tíma. Magnaukning í heild er 4%. Sala á áfengi jókst um 7.7% föstu verðlagi og árstíðaleiðrétt um 4.3%. Skóverslun jókst um 12.7% á föstu verðlagi en velta húsgagna um 3.3%. Stóru tölurnar eru í farsímum og tölvum. Sala farsíma jókst um 44% og tölvusala um 16%. Snjallsímar eru nú að koma á markaðinn. Athygli vekur að sala á stórum raftækjum(hvíttækjum)hefur aukist mikið. Erlendir ferðamenn greiddu 15 milljarða með greiðslukortum í júlí. Þesar greiðslur er 23% af kortaveltu heimila. (Upplýsingar frá SVÞ)

Evruvæðið á uppleið.

Hagvöxtur á svæðinu er nú 0.3% og nú eru það fjölmennu ríkin, Þýskaland og Frakkland sem gefa tóninn. Frakkland virðist vera að komast út úr erfiðu samdráttarskeiði. Árstíðarleiðrétt var hagvöxtur í Þýskalandi á öðrum ársfjórðungi um 0.7%. Neysla heimila, hins opinbera og byggingarframkvmdir bera hagvöxtinn áfram. Þessar fréttir koma sér afar vel fyrir Hollande forsrta Frakklands. Atvinnuleysi er 11% í Frakklandi. Útflutningur vex og neysla tekur við sér í aukinni sölu nýrra bíla. Franskir ráðamenn eru hóflega bjartsýnir á framhaldið. Þrátt fyrir þessar fréttir hafa orðið litlar breytingar á hlutabréfamörkuðum. Í Hollandi heldur samdráttur áfram en þar beita stjórnvöld hörðum aðhaldsaðgerðum og niðurskurði.

Staða vinnumarkaðar á miðju ári 2013.

Í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar er fjallað um laun, tekjur og vinnumarkað. 188300 eru á vinnumarkaði en þar af 12900 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnulausir eru 6.8% og starfandi hefur fjölgað um 3300 á einu ári. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi 8% en 4.8% utan þess. 2000 hafa verið atvinnulausir lengur en eitt ár. Það er ánægjuleg þróun að langtímaatvinnulausum fækkar. meðalvinnustundafjöldi hjá fólki í fullu starfi var 43.5 klukkustundir í viku en 23.4 hjá fólki í hlutastarfi. Atvinnuþátttaka karla er heldur meiri en kvenna. 92% starfandi fólks voru að jafnaði við vinnu eða155400. Helstu ástæður fjarvista voru fæðingarorlof, veikindi og breytingar á vinnuskipulagi. 78% starfandi voru í fullu starfi en 28% í hlutastarfi. Atvinnuleysi er mest hjá ungu fólki, þe á aldrinum 16-24 eða 16.2%.( Hagtíðindi , Hagstofu Íslands.)

Of margir fangar í of mörgum fangelsum og alltof lengi.

Eric Holder dómsmálaráðherra USA boðar stefnubreytingu í refislöggjöf. Hann vill hætta að dæma fyrir minni háttar fíkniefnabrot. Bandaríkjamenn eru 5% jarðarbúa en fangar eru næstum 25% allra fanga í heiminum. Hann vill gefa öldruðum föngum upp sakir og breyta því að dómar svartra afbrotamanna séu mun harðari en hvítra. Refsikerfið eykur á vandamál afbrotamanna í stað þess að leysa þau.  Tölfræði getur verið athyglisverð. Heildartala fanga í öllum fangeslum USA var 1.6 milljón( 1598780) 2011 og fækkaði um tæp 17 þúsund frá fyrra ári. Flestir eru fangar í Florida eða 172 þúsund en í Kaliforníu voru þeir 150 þúsund. Í Alríkisfangelsum varu 216 þúsund fangar. Konur í fangelsum voru alls 103 þúsund. Svartir karlar voru alls 555 þúsund en hvítir karlar 465 þúsund. Karlar af spænskum uppruna 331 þúsund. Rúmur helmingur allra fanga er dæmdur fyrir ofbeldisverk. 237 þúsund er dæmdir vegna fíkniefnaafbrota. 40% fanga eru 40 ára og eldri. Út úr slíkum tölum má lesa ýmislegt. Refsikerfið er notað sem tæki gegn minnihlutahópum. Til þess er refsilöggjöf og dómstólum beitt. (Allar tölur frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.)


Berlínarmúrinn. 13.8. 1961.

Fljótlega eftir miðnætti hófu austurþýskir hermenn að byggja múrinn með múrsteinum og gaddavír. Tæknilega var öll Berlínarborg á hernámssvæði Sovétríkjanna en vesturhlutinn tilheyrði Bretum , Frökkum og Bandaríkjamönnum. Stöðugur fólksstraumur var til vesturhluta borgarinnar og árið 1961 fóru um eitt þúsund manns á dag. Ulbricht og öðrum leiðtogum kommúnistaflokksins var ljóst að þannig gat þetta ekki gengið. W Brandt borgarstjóri mótmælti múrnum og daufri andstöðu Bandamanna. Í sögunni varð Berlínarmúrinn helsta tákn kalda stríðsins. 1963 mælti Kennedy hin frægu orð Ich bin ein Berliner. 9.11. 1989 safnaðist mikill fjöldi fólks við múrinn. Klifraði yfir og byrjaði að rífa hann niður. Þýsku ríkin voru sameinuð 3.10. 1990.(History.com)

Ný stefna seðlabanka eða blindur hundur leiðir blindan fjárfesti.

Leiðsögn fram á við er að verða lykilorð hjá helstu seðlabönkum í USA og Evrópu. Nú á að gefa upp vaxtastig til lengri tíma og miða við breytingar á öðrum hagstærðum og þá helst atvinnuleysi. Englandsbanki bættist nýlega í hópinn. Mark Carney sem áður var bankastjóri Seðlabanka Kanada kom hinni nýju stefnu á . Bankinn ætlar að halda stýrivöxtum lágum þar til atvinnuleysið er komið niður fyrir 7% en það er nú 7.8%. Þetta er þó háð verðbólgustigi sem er nú 2.5% í Bretlandi. Ef verðbólga hækkar verulega yrði að hækka stýrivexti. Vandinn við þetta er að nú leiðir blindur hundur blindan fjárfesti. Hvorugur hefur hugmynd um hver verðbólga, hagvöxtur og atvinnuleysi verður á næstu árum. En nú er hagnaðarhlutfall lágt, fjárfestingar litlar og neysla í lægð. Ódýrir peningar verða því ekki til að skapa ny störf. Hlutabréfavísitalan tekur að stíga og verð á húsnæði hækkar. Vísitala neysluverðs hefur alltaf verið hærri í Bretlandi en á meginlandi Evrópu. Verð á fasteignum í London hefur hækkað um 8.1% á einu ári. Á sama tíma hækkuðu laun um 1%. Raunlaun hafa lækkað um 5.5% í Bretlandi síðan 2010. Meiri lækkun er aðeins í Grikklandi, Hollandi og Portúgal. Hver eru nú viðbrögð stjórnvalda í Bretlandi? Hún fylgir stefnu sem hækkar fasteignaverð og leiðir til meiri hagnaðar þeirra sem eiga, kaupa og selja hlutabréf.  De te Fabula narratur. (Stuðst við blogg M Roberts).

Verðbólga hér og í Þýskalandi.

Í júli var verðbólga hér 3.8% og hefur verið á bilinu 2% til 8% frá árinu 2010. Þýska hagstofan gaf út bráðabirgðatölur í dag og samkvæmt henni er verðbólgan 1.9% og það þykir það mjög há tala. Vörutegundir hafa hækkað mismikið síðastliðið ár. Smjör hefur hækkað um 40% og kartöfflur um 44%. Í heild hækkar verð á matvörum um 5.7%. Þetta vilja menn skýra með óvenjulegu veðurfari í vetur og sumar. Verð á orkugjöfum hefur hins vegar hækkað um 2.9%. Dagblöð og tímarit hækkuðu um 4% og tóbaksvörur um 3.6%.Kaffi lækkaði hins vegar um 4.5% og ýmiskonar heimilistæki um 5%.  ESB skilgreinir stöðugt verðalag sem 2% þannig að enn eru Þjóðverjar til fyrirmyndar. Hér á landi hækkaði samræmd vísitala neysluverðs um 3.1% frá júni 2012 til sama mánaðar 2013. Matar- og drykkjarvörur hækkuðu um 5% á þessu tímabili. Húsaleiga , hiti og rafmagn hækkuðu um 5% á sama tíma. Þessar tölur gefa ákveðna vísbendingu. En hvað er maður með meðaltekjur lengi að vinna fyrir mismunandi vörutegundum í Þýskalandi? Það tekur hann 3 mín að vinna fyrir einu lítra af mjólk. Hann er 10 mín að vinna fyrir 2.5 kg af kartöflum. Hann er 66 mín að vinna fyrir einu kílói af þorski. Hann er 6 mín að vinna fyrir einu lítra af bensíni. En hverjar skyldu tölurnar vera fyrir Ísland?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband