Færsluflokkur: Bloggar

Kosningabaráttan í Noregi.

Í gærkvöldi voru kappræðu leiðtoga þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Stórþinginu. Aðrir voru ekki með sem er umdeilanlegt. Umræðurnar fóru fram í Arendal og samkvæmt fréttum ætlaði SDG(íslensk skammstöfun) að fylgjast með. Viðfangsefnin voru helst skattar og heilbrigðismál og rökræddu þau Jens Stoltenberg og Erna Sloberg í einvígi um þessi mál. Jens sótti mjög hart á andstæðinga sína í þessum umræðum og fréttamaður nrk.no er þeirar skoðunar að hann hafi unnið stig í þessari baráttu. Framfaraflokkurinn er í erfiðri stöðu. Hinir borgaralegu flokkarnir vilja ekki vinna með honum en Siv Jensen varði sinn flokk af festu. Knut Hareide sem talaði fyrir KrF fær hrós fyrir snaggaralega framgöngu og hnyttin tilsvör. Erna Solberg var traust og kom vel fyrir. Hún var frekar í vörn í umræðum um sjúkrahúsmál og eignaskattinn. Liv Signe frá Senterpartiet átti í erfiðleikum með að gera sig gildandi í umræðunum. Fjöldi athugasemda kom fram á twitter á meðan að á umræðum stóð. Margir voru óánægðir með að græningjar skyldu ekki fá að taka þátt. Er það ef til vill vísbending um aukinn áhuga á umhverfismálum í landinu. (Nrk.no)

Fátækt í Noregi.

Í Noregi er tekjudreifing tiltölulega jöfn og fátækir tiltölulega fáir. Lífskjör eru almennt mjög góð, laun há og verð á vöru og þjónustu hátt. Árið 2010 voru 4.5% undir fátæktarmörkum miðað við skilgreiningu OECD. Í hópi fátækra er helst að finna einstæðar mæður(feður), fjölskyldur með mjög mörg börn, innflytjendur og bótaþega. Einkum er um að ræða innflytjendur frá Asíu, Suður-Ameriku, Austur-Evrópu og Afríku. Þeir sem hafa lágar tekjur í þrjú ár samfellt eru einnig áberandi í hópi fátækra. Árið 2011 fengu 118 þúsund einstaklingar félagslega aðstoð. Þeir sem fá félagslega aðstoð búa oft við skerta vinnugetu og slæma heilsu. 5% barna lifa í fjölskyldum sem eru fyrir neðan skilgreind fátæktrarmörk. 40% barna eru úr fjölskyldum innlytjenda. Hlutfall barna frá Írak og Sómalíu er mjög hátt. Fátækt gengur í arf milli kynslóða og sama gildir um félagslega aðstoð. KVP er menntunar- og vinnumarkaðsverkefni á vegum stjórnvalda til að aðstoða einstaklinga við að brjótast úr fátækt.(Skýrsla um fátækt og lífskjör í Noregi- 2012. NAV).

Er Ísland tifandi tímasprengja?

Cyrus Sanati er sjálfstæður blaðamaður sem ritar um efnahagsmál í mörg helstu blöð Bandaríkjanna. Nefna má New York Times, Fortune og WSJ. Hann hefur nú ritað grein um Ísland sem er allrar athygli verð. Kjarni máls hans virðist vera að á Íslandi hafi orðið hrun eftir að landinu hafi verið stjórnað sem vogunarsjóð fyrir hrunið. AGS hafi komið til bjargar en hin raunverulegu vandamál hafi ekki verið leyst heldur fryst eða sett í biðstöðu. Fyrr eða síðar verði íslensk stjórnvöld að horfast í auga við veruleikann.Gjaldeyrishöftin komi í veg fyrir að krónan hrynji endanlega saman og afturgöngu-bönkum er haldið á lífi með því að fresta uppgjöri við kröfuhafa. Fyrir hrun tóku íslenskir háar summur að láni erlendis og að sögn Sanati með því að lofa lánveitendum hærri vaxtagreiðslum en hægt var að fá heima fyrir. (Sanati virðist alhæfa út frá icesave-reikningum)Bankarnir gátu síðan endurlánað á hærri vöxtum en lánin enduðu sem tíföld þjóðarframleiðsla og þessi spilaborg hlaut að hrynja fyrr eða síðar. Eftir Hrun lánar AGS Íslandi upphæð sem nemur þriðjung landsframleiðslu en er út af fyrir sig lítil í augum milljónaþjóða. Og nú virðist allt ganga. Lágt gengi krónu, ferðaþjónusta og sjávarútvegur virðast vera að bjarga landinu. Meir að segja sérfræðingar AGS eru ánægðir. En segir Sanati þetta er gervilausn. Gjaldeyrishöftin brengla myndina. Innlent og erlent fjármagn er lokað inni. bankarnir stunda ekki eðlilega lánastarfsemi. Þeir reikna og umreikna gamlar skuldir. Neysla og fjárfesting hefur minnkað um 20% frá því fyrir hrun. Þjóðarframleiðsla er 10% minni en fyrir hrun. Ísland hefur ekki marga góða kosti. Ef gjaldeyrishöftum verður ekki aflétt mun hagkerfið halda áfram að minnka. Ef höftunum er aflétt mun verð eigna lækka og fjármagn fara úr landinu. Eiga erlendir aðilar að hefja fjárfestingar við slíkar aðstæður, spyr Sanati. Íslensku bankarnir eru líkir bönkum á Spáni. Þeir fjármögnuðu fasteignabólur sem sprungu og neyðast fyrr eða síðar til að afskrifa mikið af lánum. Vogunarsjóðir kaupa og selja kröfur og lánasöfn og nú er við þessa aðila að eiga. Fjárfestar munu fylgjast náið með því sem ríkisstjórn Íslands gerir á næstunni. Ísland sýnir vanda stærri þjóða í hnotskurn.

Er evrusvæðið að braggast?

Á síðasta ársfjórðungi hófst hagvöxtur á evrusvæðinu eftir langa niðursveiflu. Verg landsframleiðsla 17 ríkja á svæðinu óx um 0.2 %. Í Þýskalandi er vöxturinn áætlaður 0.75% endanlega mun Hagstofa ESB staðfesta tölurnar 14. ágúst. Batnandi ástand í USA hefur jákvæð áhrif. Alemnnt séð er ástandið að batna en nokkur ríki í Suður Evrópu eiga í miklum vanda. Draghi bankastjóri Seðlabanka Evrópu segir að um tilhneigingu til bata sé að ræða. Stýrivextir bankans hafa aldrei verið lægri og þeim verður ekki breytt í bráð. Samdráttur varð á Spáni um 0.1% á 2. ársfjórðungi og atvinnuleysi ungs fólks er 56%. Væntingarvísitalan hækkaði sem og iðnframleiðslan á öllu svæðinu. Aecco vinnumiðlunin sú stærsta sem fæst við ráðningar til skamms tíma sýndi fram á aukinn hagnað á öðrum ársfjórðungi. Þýska hagkerfið vex og vöxturinn er drifinn áfram af einkaneyslu og iðnframleiðslu. Ástandið á fjármálamörkuðum svæðisins hefur verið tiltölulega rólegt það sem af er ársins. Í 5 ár samflellt hefur gríska hagkerfið dregist saman. Leið evrusvæðisins úr lægðinni er háð bata í Bretlandi, USA og Kína. Vöxtur í USA er nú meiri en 1% og gæti orðið það á evrusvæðinu 2014. En þá þurfa að koma til auknar lánveitingar banka til fyrirtækja á evrusvæðinu og eukin einkaneysla.

Norðurslóðir. Kínverskt flutningaskip fer norðaustur leiðina.

Frá Dalian til Rotterdam mun leiðin taka 35 daga í stað 48 ef farið er um Suez-skurðinn. Skipið heitir Yong Sheng og er í eigu skipafélagsins Cosco. Það skiptir miklu máli ef ferðin styttist um allt að 15 daga. Þetta sýnir mikilvægi leiðarinnar og Kínverjar hafa alltaf lagt mikla áherslu á hagsmuni ríkisins á Norðurslóðum. Nú er leiðin eingöngu opin yfir sumarmánuðina en á því kann að verða breyting á næstu árum og áratugum. Enn sem komið er er ekki um val að ræða á skipaleiðum. Meir en 99% allra flutninga mun fara um Suez-skurðinn. Það er mjög dýrt að halda norðaustur leiðini opinn með ísbrjótum en þróunun virðist samt vera sú að ferðum skipa mun fara fjölgandi.

Hvaða verkefni voru styrkt með IPA styrkjum?

Á 139. löggjafarþingi lagði þingmaðurinn Birgir Ámannsson fram fyrirspurn til utanríkisráðherra og spurði nokkurra spurninga. Hann spurði ma hvaða verkefni hefði fengið styrk. Svarið var fróðlegt.  Hagstofan hafði fengið styrki til að senda starfsmenn á fundi í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi til að kynna sér fjárhagsuppgjör. Mannréttindastofnun HÍ fékk styrk til að halda ráðstefnu um mannréttindamál innan ESB. Samtök  Garðyrkjubænda semdu menn í vinnuferð til Finnlands til að afla sér upplýsinga um garðyrkju í ESB. Iðnaðarráðuneytið óskaði eftir vinnufundi til að kynnd sér regluverk ESB varðandi olíubirgðir. FME óskaði eftir vinnufundum um gerð áhættulíkana og umupplýsingatækni sem myndasst nýtast á þessu sviði. Samninghópur um sjávarútvegsmál óksaði eftir vinnufundi um skipaskrár. Þessi upptalning er ekki tæmandi en öll eru verkefnin hluti af landsáætlun Íslands. Eins og greinilega kemur í ljós nýtast öll þessi verkefni í EES samstarfinu. Ummæli forsætisráðherra um ipa styrkina og verkefnin eru rangfærslur og settar fram í pólitískum tilgangi. Forsætisráðherra er núna eins og áður að slá póltískar keilur með því að höfða til andúðar gegn erlendum skammstöfunum. Þannig haga lýðskrumarar sér.

SDG og skýrsla AGS.

Í viðtali við ruv.is segir SDG að sér hugnist ekki pólitísk stefna AGS að öllu leyti. Hann telur sjóðinn hafa ranga skoðun á hugmyndum Framsóknar á leiðréttingu skulda heimila. SDG heldur því fram að AGS sé þeirrar skoðunar að ríkissjóður verði að taka lán til að greiða niður verðtryggð lán heimila.  Þetta verður að teljast mjög merkileg túlkun á efni skýrslunnar. Á bls. 16 (og víðar) er fjallað um þær hugmyndir að fjármagna leiðréttingu skulda með því að semja við erlenda kröfuhafa um útstreymi fjár á mjög lágu gengi krónu. Í reynd þýðir þetta að ríkissjóður tekur til hluta af fjármunum erlendra kröfuhafa. AGS bendir á að mikil óvissa sé um framkvæmd og upphæð í slíkri framkvæmd. Auk þess er bent á að skynsamlegra sé að nota slíka fjármuni til að lækka ríkisskuldir. það er skynsamleg skoðun að slíkir fjármunir eigi að nota þannig að þeir nýtist öllum en ekki fyrst og fremst þeim sem tóku verðtryggð lán á ákveðnu tímabili. Ekki er hægt út frá þessu dæmi að segja að SDG hafi alls ekki lesið skýrsluna en hann hefur ekki lesið hana vel eða að hann snýr út úr og talar gegn betri vitund.

Forsætisráðherra fer með rangt mál.

Eftir langa dvöl í Kanada er SDG kominn til landsins og virðist hafa tekið til starfa. En öll byrjun er erfið og ráðherrann lýsir því nú yfir að svokallaðir ipa styrkir hafi verið til þess eins að koma landinu inn í ESB. Sönnun þess er sú segir ráðherrann að ESB hafi hætt styrkveitingum þegar Ísland gerði ótímabundið hlé á aðildarviðræðum(aðlögunarferli í orðræðu ráðherrans). Þetta kemur mönnum spánskt fyrir sjónir. Styrkirnir eru ætlaðir ríkjum sem eru í aðildarviðræðum eða hafa sýnt skýran vilja um að hefja slíkar viðræður. Ísland fékk styrkina á grundvelli erfiðleika eftir hrun og öll hafa styrkt verkefni miðast við að nýtast stjórnsýslu landsins og stofnunum hvort sem til aðildar kæmi eða ekki. Forsætisráðherra ætti að vera kunnugt um það að ákvörðun um aðild er tekin af þjóðinni í almennri atkvæðagreiðslu. Norðmenn hafa þannig í tvígang hafnað aðildarsamningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra stöðvaði viðræður og þar með fellur niður réttur til styrkja. Málatilbúnaður forsætisráðherra er heldur daufur áróður en kannski var hann of lengi í útlöndum. Kannski hefði hann átt að vera á landinu og sinna brýnum vandamálum þjóðarinnar. Þau verða ekki leyst með töfrabrögðum og þau leysa sig ekki sjálf.

Kosningar í Noregi eftir mánuð.

Höyre er í mikill sókn og samkvæmt einni spá er fylgið 31.2% og flokkurinn myndi fá 56 þingmenn. Verkamannaflokkurinn er með 29.6% þannig að bilið er nokkuð. Framfaraflokkurinn er eini borgaralegi flokkurinn sem tapar fylgi og það er því Erna Stolberg en ekki Siv Jensen sem er leiðtogi hægri vængsins. Sv fær 3.7% í könnunum og einn þingmann. Græningjar fá 2.7%. Margir flokkar eru því rétt við mörkin að komast á þing og það gerir óvissuna enn meiri um úrslit. Það er því mikil óvissa um úrslitin en ljóst að Erna Solberg og flokkur hennar leiða baráttuna. En sigur er ekki unninn fyrirfram. Kosningavél Verkamannaflokksins er afar öflug og á henni og nánu samstarfi við LO verkalýðshreyfinguna hefur flokkurinn byggt völd sín. Flokkurinn verður því að koma með sterk og óvænt útspil á næstu vikum. (Klassekampen.no)

Forsætisráðherra ríkisstjórnar Íslands.

Hann er fæddur 1975 og er því 38 ára gamall. SDG varð stúdent frá MR 1995. 2005 lýkur  hann BS prófi frá viðskipta-og hagfræðideild Háskóla Íslands. Þetta eru einu próflok sem skráð eru.  Auk þess stundaði hann fjölmiðlanám við sama skóla. Hann stundaði nám við Kaupmannarhafnar Háskóla og Háskólann í OXford í stjórnmálafræði, hagfræði og skipulagsfræðum. Hann var fréttamaður og þáttastjórnandi í hlutastarfi hjá Ruv.is á árunum 2000 til 2007.  Samkvæmt ferilskrá hans á vef Alþingis er þetta eina starfsreynslan. Hann var kjörinn á Alþing 2009. Frá sama ári hefur hann verið formaður Framsóknarflokksins. Hann var fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008 til 2010. Nú hefur frami SDG verið afar skjótur. Ungur aldur hans og takmörkuð reynsla af þjóðmálum vekja athygli.  þrátt fyrir langa dvöl við erlenda háskóla lýkur hann ekki formlegum prófum. Strax í haust mun reyna á hæfni SDG og nánustu samstarfsmanna hans að glíma við mjög erfið og mörg vandamál. Sagan mun leiða í ljós hvort SDG var réttur maður á réttum stað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband