Færsluflokkur: Bloggar
10.8.2013 | 18:32
IPA-áætlun og Ipa-styrkir.
IPA styrkir standa öllum ríkjum sem sækja um aðild að ESB til boða en einnig þeim ríkjum sem mögulega munu sækja um.Ætlunin er að styðja ríki með fjárframlögum og með samstarfi sérfræðinga. Áætlanir eru tvenns konar. Annars vegar landsáætlanir og hins vegar fjölþegaáætlanir. Hvert ríki undirbýr sína landsáætlun og fær ákveðna fjárupphæð til að vinna að verkefnunum. Fjölþegaáætlanir ná til allra umsóknarríkja og eru miðstýrðar. Íslensk stjórnvöld hafa haft þá stefnu að öll verkefni nýtist vegna aðildar Íslands að EES en óháð hvort að aðild að ESB yrði. Almennt séð eru verkefni til að efla stjórnsýsluna eins og verkefni sem snýr að gerð þjóðhagsreikninga hjá Hagstofunni. Annað dæmi er verkefni sem Matis hefur undirbúið og hefur með heilbrigðis-og matvælaeftirlit á EES-svæðinu að gera. þar sem ríkisstjórnin hefur gert ótímabundið hlé á aðildarviðræðum og stefna ríkisstjórnarflokka liggur fyrir hefur ESB tekið fyrir styrkveitingar. Í áraraðir hefur Ísland tekið þátt í fjölþjóðlegum verkefnum sem fjármögnuð eru af ESB. Nefna má Leonardo og Comenius. Að sjálfsögðu verður engin breyting á því samstarfi.
10.8.2013 | 11:31
Þýsk stórfyrirtæki styðja CDU.
Það styttist í kosningar í Þýskalandi og CDU hefur talsvert forskot á SPD flokk jafnaðarmanna. Það sem af er þessu ári hefur flokkur Merkel kanslara fengið 600 þúsund evrur í styrki. Það er nánast jafn mikið og allir aðrir flokkar til samans og þá er systurflokkurinn í Bæjaralandi CSU talinn með. Einstaka styrki yfir 50 þúsund evrum verða flokkarnir að tilkynna þingnefnd en styrkir á bilinu 10 þúsund til 50 þúsund koma fram á reikningsyfirliti flokkanna. Í júlí fékk CDU 130 þúsund evrur frá fyrrum forstjóra lyfjarisans Merck. Fyrirtæki í efnaiðnaði voru einnig örlát. BMW AG færði hins vegar CDU 140 þúsund evrur og er það hæsti einstaki styrkur hingað til. SPD liggur CDU langt að baki hvað varðar styrki og Græningjar og Die Linke komast ekki á blað. Einstakir háir styrkir segja hins vegar ekki alla söguna um útgjöld vegna kosningabaráttunnar. Þessar tölur segja okkur hins vegar hvaða tilfinningar stjórnendur stórfyrirtækja bera í brjósti til stjórnmálaflokkana.
10.8.2013 | 10:20
Staðan á vinnumarkaði.
Nýjasta mánaðaryfirlit VMST er á heimasíðu stofnunarinnar. Það sýnir tölur í júni á þessu ári. Þar kemur fram að skráð atvinnuleysi var 3.9% og atvinnulausir voru 6935. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysið 4.5% en á landsbyggðinni 2.8%. 1238 voru skráðir í vinnumarkaðsúrræði sem telst góður árangur samanborið við önnur lönd. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meir en eitt ár voru 2106 í júnílok. 1317 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu. Almennt er atvinnuleysi hærra hjá konum en körlum og munar rúmu prósenti. Af einstökum landsvæðum er atvinnuleysi áberandi á Suðurnesum en þar voru 626 atvinnulausir í júní. Flokkað eftir greinum eru flestir atvinnulausir í verslun eða 1291. Af atvinnulausum hafa 3283 einungis lokið grunnskólanámi eða 45%. Hér eins og í öðrum löndum er þessi hópur í mestri hættu að verða atvinnulaus. Í júní voru skráð laus störf hjá VMST 239. Í júní 2012 var atvinnuleysi 4.8% og 8704 voru að meðaltali atvinnulausir. Af þeim voru 4319 eingöngu með grunnskólanám og voru 49% atvinnulausra. Fyrir þennan hóp hafa því orðið til störf og vinnumarkaðsátak hefur sitt að segja.
9.8.2013 | 22:24
Styrkir Höyre en býr í skattaparadís.
Kosningabaráttan er hafin í Noregi og hún kostar flokkana mikla fjármuni. Norskur fjárfestir að nafni Arne Fredly flutti til Monakó 2001 til þess að losna við norska skatta. Hann hefur líklega talið þá alltof háa og á hann nokkra skoðanabræður hér á landi hvað skatta varðar. En hann vill hafa áhrif á stjórnmálin í heimalandinu og styður nú Ernu Solberg og flokk hennar með miklum fjármunum. Flokksmenn sjá ekkert athugavert við þetta. Eignir Arne eru metnar á 1.6 milljarð norska króna og honum munar ekki um 100 þúsund krónur norskar sem hann lætur renna til flokksins. Strangt til tekið er þetta löglegt þar sem Arne er norskur ríkisborgari. Samkvæmt lögum um stjórnmálaflokka er bannað að taka við fjármunum frá erlendum ríkisborgurum eða samtökum. En hvaða skilaboð er flokkurinn að senda til kjósenda? Hver er trúverðugleiki flokksins? Augljóst er að Arne er ekki að styrkja flokkinn af góðsemi einni saman. Hann vonast augljóslega eftir breytingum á skattakerfinu. Æ sér gjöf til gjalda.
9.8.2013 | 11:47
Kínverska hagkerfið; örstutt stöðumat.
Í júlí hafði verð á neysluvörum hækkað um 2.7% á einu ári. Það er talsvert fyrir neðan 3.5% markið sem stjórnvöld höfðu sett. Þetta er hvatning til bankakerfisins til að lækka vexti og örva þannig hagkerfið. Stór iðnfyrirtæki juku framleiðslu sína um 9.7% frá júní 2012 til júni í ár. Málmframleiðsla óx um 11.8% og bílaframleiðsla um14.1%. Auk þess hefur innflutningur á sömu vörutegundum vaxið. Fjárfesting í föstum fjármunum (framleiðslutæki) óx um 20.1%. Fjárfesting í innviðum(infrastructure) er í öruggum vexti. Það hefur hægt á aukningu peningamagns. Síðastliðna tólf mánuði hefur smásöluverslun vaxið um 13.2%. Í nokkrum vöruflokkum var samdráttur, t.d í dagvöru og hálfvaranlegum vörum t.d. húsgögnum. Útflutningur óx um 5.1% á síðastliðnum 12 mánuðum og innflutningur um 10.9%. Það virðist því ekki nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að grípa til skammtímaaðgerða til að örva hagvöxt heldur einbeita sér að kerfislægum umbótum.(Rob Minto í ft.com.)
9.8.2013 | 10:11
Binni í Vinnslustöðinni skuldum vafinn?
Háar arðgreiðslu til eigenda Vinnslustöðvarinnar í Eyjum hafa vakið athygli og eru án efa mikið ræddar meðal eyjaskeggja.(Þær námu rúmum milljarði króna) Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki greiði arð. Fjárfesting er til langs tíma og hagkvæmur rekstur á að skila arði til lengri tíma litið. Rekstrarhagnað er hægt að nota til að greiða niður skuldir eða til nýfjárfestinga. Stundum er sagt að skattakerfið hvetji beinlínis til fjárfestinga. Seil ehf er mjög skuldugt félag og Binni er einn eigenda þess. Seil á 25% í VSV eins og bræðurnir af Snæfellsnesi. Árið 2011 skuldaði Seil 2.3 milljarða króna. Ef það er skuldastaða eignarhaldsfélaga eigenda VSV sem ræður arðgreiðslum en ekki lykiltölur í rekstri eða framtíðarstefna fyrirtækisins blasir við undarleg staða. Bræðurnir Guðmundur og Hjálmar vildu minni arðgreiðslur og meiri nýfjárfestingar. Þeirri hugmynd var hafnað á aðalfundi. Staðan er undarleg. Mikil endurnýjun er bráðnauðsynleg á skipaflota landsmanna. Meðalaldur skipa er óeðlilega hár og endurnýjunarþörf mikil. Mikil skuldsetning eigenda getur hins vegar leitt til þess að fjármunur renna úr fyrirtækjum til bankakerfis en fara ekki í nauðsynlegar nýfjárfestingar. Enn undarlegra er að árum saman hafa SA og pólitískir fylgisseinar kvartað hástöfum yfir litlum fjárfestingum.( Heimild dv.is).
9.8.2013 | 09:03
Norski olíusjóðurinn; arðsemi hans og framtíð.
Í júni voru eignir sjóðsins 4397 milljarðar norskra króna. Á öðrum ársfjörðungi voru tekjur sjóðsins (aðeins) 17 milljarðar króna. 63% eigna eru í hlutabréfum og 36% í verðbréfum. 1% er fjárfestum í fasteignum. Erlend deild sjóðsins hefur nýlega ráðið til sín þekkta menn úr fjármálageiranum til að veita ráðgjöf. Meðal þeirra er John Watson frá Lloyds Banking. Slyngstad forstjóri Norska olíusjóðsins nýtur virðingar á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur verið kjörinn í 3ja sæti á lista yfir mikilvæga opinbera fjárfesta af þekktri fræðistofnun SWF Institute. Nokkur óvissa er um framtíðarskipulag sjóðsins. Frp vill skipta honum upp í 3 til 4 minni sjóði. Núna er sjóðurinn fjórum sinnum stærri en útgjöld norska ríkisins á einu ári. Höyre eru einnig opnir fyrir breytingum. Með því að skipta sjóðnum upp væri hægt að sérhæfa meira í fjárfestingum, t.d. fjárfesta meir í grænum verkefnum eða verkefnum í þróunarlöndum. (Aftenposten. no)
8.8.2013 | 22:52
Hræsnarar gegn fávitum; NSA í þýskri kosningabaráttu.
Mikill æsingur er í umræðu um njósnir NSA og samstarf við BND(þýska leyniþjónustan) í kosningabaráttunni. Ásakanir ganga á víxl. Hægrimenn kalla jafnaðarmenn hræsnara vegna þess að samstarfið hafi hafist í valdatíð þeirra. Steinmeyer þingflokksformaður gegndi þá mikilvægu hlutverki. Atburðirnir 11.9. 2001 urðu til þess að samstarfið var aukið mikið. Jafnaðarmenn benda á að þetta segi ekkert um hvernig samstarf leyniþjónustanna sé í dag. Nú hefur yfirmaður BND lýst því yfir að mikið magn gagna sé afhent NSA með reglulegu millibili og sjálfkrafa. Enn er ekki ljóst hvort NSA aflar sér upplýsinga um þýska ríkisborgara með beinum hætti. Það er heldur ekki ljóst hvernig NSA notar Prism til að fylgjast með tölvusamskiptum fjölþjóðlegra fyrirtækja. Það er ljóst að afhjúpun víðtækra njósna er rétt að hefjast. (Der Spiegel).
8.8.2013 | 20:35
Sund og sundkennsla í Noregi.
Það sem af er þessu ári hafa 59 drukknað í Noregi. Árið 2012 drukknuðu 83. 17 drukknuðu í júlí á þessu ári. Samkvæmt könnun á vegum norska sundsambandsins getur um helmingur tíu ára barna synt 200 metra eða meira. 17% barna innflytjenda/minnihlutahópa geta ekki haldið sér á floti. Af þeim sem læra að synda í skólanum eru nemendur af asískum eða afrískum uppruna fleiri en hlutfallstala gefur tilefni til. Ástandið er mjög mismunandi eftir stöðum í Noregi. Í Ósló fá nemendur 10 tíma í sundkennslu. Flestir læra að synda af foreldrum , í sundfélögum eða á sundnámskeiðum. Nemendur í Drammen fá 14 tíma , nemar í Þrándheimi 24 tíma og í Tromsö fá nemar 45 tíma áður en þeir ljúka 7 bekk. Formaður sundsambandsins Per Rune Eknes telur að 45 tímar á ári ætti að nægja flestum. Ákveðinn tímafjöldi er ekki aðalatriði heldur hæfni og geta.( Klassekampen.no)
8.8.2013 | 12:23
Gríska Hagstofan um atvinnumarkaðinn.
Gríska Hagstofan sendi frá sér fréttarilkynningu í dag. Í henni kemur fram að atvinnuleysið í mai hafi verið 26.7%. Tæp 1.4 milljónir manna eru án atvinnu en með atvinnu eru rúmar 3.6 milljónir. Rúm 30 þúsund manns misstu atvinnu í apríl. Utan vinnumarkaðar eru 3.3 milljónir. Þeim fækkaði um 20 þúsund í apríl. Árið 2008 voru atvinnulausir tæp 360 þúsund. Tæp 32% kvenna eru nú atvinnulausar en 24.6% karla. Atvinnuleysi er langmest í aldurshópnum 15 til 24 ára eða 65%. Atvinnuleysi er mismunandi eftir landsvæðum. Á Krít er það 24.8%.
Um bloggið
Hrafn Arnarson
Tenglar
Mínir tenglar
- Næsta kreppa. Marxískur hagfræðingur skrifar um efnahagsmál.
http://thenextrecession.wordpress.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar