Færsluflokkur: Bloggar

Fiskveiðar Færeyinga.

Vegna deilna Færeyinga við ESB og Norðmenn er rétt að huga að mikilvægi sjávarútvegs fyrir eyjaskeggja. Árið 2012 var útflutningur sjávarafurða 91% af heildarútflutningi. Í veiðum og vinnslu eru 2800 störf eru Færeyingar eru 48 þúsund talsins.  Í þjónustustörfum eru 55% af vinnumarkaði sem er talsvert minna en hér á landi. Makrílveiðar jukust afar mikið á árunum 2009 til 2011. Árin 2001 til 2007 voru kolmunaveiðar afar mikilveiðar en síðustu ár hefur veiðin minnkað afar mikið. Verðbólga er lítil í Færeyjum eða um 2%. Færeyska krónan er tengd dönsku krónunni sem er tengd evrunni (með vikmörkum) eins og kunnugt er.

John F Kennedy ; forseti og glaumgosi.

C Andersen hefur skrifað bók um síðustu ár Kennedy. Forsetinn var glæsilegur stjórnmálamaður sem hreif milljónir manna með sér. Kennedy fjölskyldan var mikilvægasta pólitíska fjölskylda USA. Forsetinn hefur orðið að goðsögn, tákni og nánast politískri helgimynd. En framhlið er eitt og bakhlið annað. Lengi hefur verið vitað um kvennamál forsetans. Áður en hann giftist Jacqueline hafði hann verið í sambandi við Joan Crawford, Audrey Hepburn og Zsa Zsa Gabor. Lítið breyttist eftir að John F gekk í hjónaband. Hann átti í löngu ástarsambandi við Mary P Mayer. Mjög þekkt er samband hans við Marilyn Monroe en hún virðist hafa trúað því að Kennedy ætlaði að skilja við Jacqueline og giftast henni. Kennedy var bakveikur og var með mikla verki. Læknir hans lét hann fá mikið af verkja-og deyfilyfjum en það kann að hafa haft áhrif á hegðun hans. Framhliðin var ást, tryggð, lífsgleði og hugrekki. En hún var tilbúningur eins og sagan um Kamelot og Arthúr konung. ( Bók C Andersen er fáanleg hjá Amazon. Stuðst við Spiegel).

Erlendir ferðamenn.

Árið 2000 komu hingað rúm 300 þúsund erlendir ferðamenn. Áratug síðar voru þeir 488 þúsund og í fyrra var talan 672 þúsund. Ferðamenn í skemmtiferðaskipum eru ekki í þessum tölum. Meðalvöxtur á tímabilinu er 7.2%. 84% allra erlendra ferðamanna koma með flugi. Ástæður komu þeirra hingað er annars vegar náttúra landsins og hins vegar saga og menning þjóðarinnar. Tekjur á hvern ferðamann hafa farið lækkandi og voru tæp 30 þúsund árið 2009. Nú er svo komið að vinsælir ferðamannastaðir eru undir álagi. Nauðsynleg uppbygging til að vernda staðina verður að eiga sér stað og hana verður að fjármagna með gjaldtöku af ferðamönnum. Fjölmargar leiðir koma til greina og fyrirmynda má víða leita. Náttúran er auðlind og ofnýting mun skaða og að lokum eyðileggja auðlindina. Mikilvæg stefnumótun er framundan.

Væntingarvísitalan hækkar á Evrusvæðinu.

Samkvæmt væntingavísitölu IFO stofnunarinnar búast  atvinnurekendur við batnandi ástandi á næstu 6 mánuðum. Í flestum löndum svæðisins er raunverulegt ástand óbreytt og slæmt. Í Frakklandi, á Spáni, Kýpur, Ítalíu er efnahagsástandið slæmt. Hægan bata má sjá á Írlandi, í Belgíu, Finnlandi, Hollandi og Slóveníu.  Í Þýskalandi og Eistlandi er ástandið gott að mati sérfræðinga. Í Slóveníu og Kýpur er búist við að ástandið versni. Á evrusvæðinu var vöxtur frá apríl til júní á þessu ári en samdráttur hafði verið í eitt og hálft ár á undan. Stundum er stemmingin verri en ástandið gefur tilefni til stundum eins og núna er hún betri.

Norðmenn taka afstöðu með ESB en gegn Færeyingum.

Ráðherra sjávarútvegsmála Lisbeth Berg-Hansen í stjórn Jens Stoltenberg hefur tekið eindregna afstöðu í málinu. Skoðun hennar er í samræmi við stefnu miklivægra hagsmunasamtaka í norskum sjávarútvegi. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 31. 7.  er talað um skort á raunsæi hjá Færeyingum og einnig Íslendingum þegar kemur að makríl. Berg-Hansen segist ánægð með og sammála aðgerðum ESB.Við munum einnig setja á löndunarbann á síld frá Færeyjum ef þeir standa við ákvörðun sína um auknar veiðar. Ráðherrann segir að Norðmenn muni hindra útflutning á síld frá Færeyjum eftir að bann ESB hefur tekið gildi. Kannski utanríkisráðherra Íslands hafi skoðun á málinu og vilji tjá sig? Flokksbróðir hans sjávarútvegsráðherrann?

Binni í Vinnslustöðinni sýpur hveljur.

Sigurgeir Brynjar framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar skrifar grein á visir.is í dag. Þar kemur hann með skýringar og útreikninga á nýlegum arðgreiðslum fyrirtækisins. Að mati Binna eru þær fullkomlega eðlilegar, dreifast á marga og koma öllu byggðarlaginu í Eyjum til góð. Gott hjá Binna! Allt í góðu lagi en umræða bara öfund og leiðindi og skilningsleysi á því að ofurskattar eru að sliga útgerðina í landinu!! Binni bendir á það að hluthafar eru 260 en hann gleymir því sem mikilvægast er að gera grein fyrir eignadreifingu. Ekki nema það sé svo að allir eigi nákvæmlega jafnt! Nú hefur Binni reiknað út að hlutafé í Vinnslustöðinni hafi gefið jafn mikinn arð og ríkistryggð skuldabréf ef reiknað er frá 2002. Sem sagt; áhættulaus fjárfesting er jafn góð og fjárfesting í Vinnslustöðunni. Inní þessum útreikningum er örugglega Hrunið en árið 2008 hvarf eigið fé sjávarútvegsins sem greinar nánast alveg. Verður þá ekki samanburður óheppilegur því varla telst hrun alls bankakerfisins og fjölmargra fyrirtækja verða eðlilegt árferði? Enda þótt Binni sé Snæfellingur virðist hann hafa gengið í flokk Eyjamann í Vinnslustöðunni í harðri baráttu við Snæfellinga í Vinnslustöðinni. Hann telur arðgreiðslur tryggja eignarhald Eyjamanna í VSV. Eða eins og stendur á öðrum stað ; við lifum í besta mögulega heimi allra heima.

Skýrsla AGS um Þýskaland.

Gangið ekki of langt í aðhaldi og sparnaði. Þetta er kjarni ráðlegginga AGS til þýskra stjórnvalda. Auk þess mælir sjóðurinn með launahækkunum til að örva innlenda eftirspurn. Andinn í skýrslunni er jákvæður. Þýskaland er mikilvægasti hlekkur í stöðugleika í Evrópu. Landið er eitt mesta útflutningsríki í heimi og þess vegna mjög háð þróun á alþjóðlegum mörkuðum. AGS telur rétt að þýskt launafólk fái til sín stærri hluta af þjóðartekjum. Þessu er hægt að ná með almennri lækkun skatta. Þetta myndi gera landið óháðari sveiflum á erlendum mörkuðum. Lausn á pólitískum vandamálum í evrusamstarfinu mun auka hvata til fjárfestinga. AGS sér ákveðna veikleika í þýsku fjármálakerfi. Eigið fé bankanna hefur að vísu vaxið en hagnaðarhlutfall er ekki nægilega hátt. 2000 til 2010 lækkuðu raunlaun í Þýskalandi en síðustu tvö ár hefur kaupmáttur vaxið. Þýskaland hefur í langan tíma flutt mun meira út til evrulanda en inn frá þeim. Síðan 2007 hefur þróunin verið í meiri jafnvægisátt.( Stuðst við Der Spiegel.)

2007 endurtekur sig á vinnumarkaði.

Starfsgreinasamband Íslands sendir frá sér fréttatilkynningu í dag. Þar er eindregið varað við launaþróuninni að undanförnu. Tekjubil er að aukast. Upplýsingar úr álagningarskrám gefa til kynna umtalsvert launaskrið hjá stjórnendum og yfirmönnum til að mynda í fjármálageira. Þetta á einnig við um forstjóra ríkisstofnana en ekki almennt starfsfólk í þessum stofnunum. Ef endurreisa á íslenskt hagkerfi þurfa allir að standa saman en nú er greinilegt að ýmsir hópar hafa tekið forskot á sæluna. Við það rofnar samstaðan sem ef til vill var aldrei til staðar. Lykilatvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn hefur greinilega efni á háum arðgreiðslum. Árið í fyrra var metár fyrir ferðaþjónustufyrirtæli. Skattaumhverfið er fyrirtækjunum hagstætt og allar útflutningsgreinar hagnast af afar lágu raungengi. Kjaraviðræður í haust hljóta að taka mið af þessu ástandi.

 

 

 


Grikkland, Spánn og Ítalía.

Evrusvæðið er að rétta úr kútnum og ýmis batamerki sýnileg. En það á ekki við um SuðurEvrópu og langvinn kreppa virðist framundan. Kreppan er dýpst í Grikklandi og gríska ríkið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Ekki er hægt að lækka skuldir ríkisins í 124% af vergri landsframleiðslu í samræmi við markmið AGS. Almenn lífskjör í landinu hafa versnað meir en í nokkru öðru ríki á evrusvæðinu. Skattar hafa hækkað og hagkerfið dregist saman um meir en 20%. AGS og leiðtogum evrusvæðisins er ljóst að meiri fjármagns er þörf til að tryggja greiðslugetu gríska ríkisins. Þríeykið, AGS, ESB og Seðlabanki Evrópu krefjast mikillar fækkunar ríkisstarfsmanna.  Niðurskurður og sparnaður til dauða?

Samkvæmt nýjum spám AGS mun atvinnuleysi á Spáni verða yfir 25% amk til 2018. Hagvöxtur verður innan við 1% á sama tíma. Ráð AGS er að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Það þýðir að vinnuaflið verður ódýrara. Undanfarinn áratug hafa hagvaxtartölur lækkað á Ítalíu og landið á í djúpri pólitískri kreppu. Þar leikur Berlusconi aðalhlutverkið. 


Varalið á breskum vinnumarkaði?

Samkvæmt fréttum BBC vinnur nú ein milljón Breta samkvæmt "zero hours" ráðningarsamningum. 14% þessa hóps getur ekki unnið fyrir lágmarkslaunum. Slíka ráðningarsamninga má m.a. finna í heilsugæslu, menntageira og á sjúkrahúsum. Réttarstaða starfsfólks er eins og hún var fyrir daga verkalýðsfélaga. Lýsingar má lesa í Auðmagninu eftir Karl Marx. Engin lífeyristryggingar, engar tryggingar, engar fastar vinnustundur og fólki er vísað burt þegar það hentar. Opinberar tölur Hagstofunar telja að 250 þúsund starfsmenn séu með slíka samninga en rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir eru margfalt fleiri. Sá sem hefur slíkan samning er í opinberum tölum ekki atvinnulaus en á vinnustaðnum er réttleysi nánast algert. Fyrir vinnuveitandann bjóða slíkir samningar uppá mikinn sveigjanleika og lækkun launakostnaðar. Það er stórt atriði í stefnu hægriflokka og öfgahægri flokka að brjóta niður vald verkalýðsfélaga. Sagan sýnir okkur það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hrafn Arnarson

Höfundur

Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson
Höfundur er áhugamaður um stjórnmál og þjóðfélagsmál.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband